Cristopher A. Wray, stjórnandi bandarísku alríkislögreglunnar FBI, hefur varað við áframhaldandi afskiptum Rússa af kosningum í Bandaríkjunum. Í ræðu í Washington í dag sagði hann að afskipti Rússa af gangi lýðræðisins vestanhafs vera „þýðingarmikla gagnnjósnaógn“.
Í frétt New York Times um málið kemur fram að Wray hafi sagt að þau afskipti sem Rússar reyndu að hafa af þingkosningunum í Bandaríkjunum síðasta haust séu álitin vera eins konar „búningaæfing fyrir stóru sýninguna árið 2020.“
Afskipti Rússa af forsetakosningunum árið 2016 eru útlistuð á mörghundruð blaðsíðum í skýrslu Roberts Mueller, sérstaks saksóknara, og sögð óumdeild. Samkvæmt frétt New York Times hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti þó ekki haft sérstakan áhuga á því að ræða um þá ógn sem stafar af afskiptum Rússa.
Bandaríkjaforseti lítur nefnilega á það sem svo – og þetta hefur New York Times eftir heimildarmönnum sínum innan Bandaríkjastjórnar – að allt tal um gagnnjósnaógnina sem stafar frá Kremlin setji spurningamerki við lögmæti sigurs hans í kosningunum árið 2016. Þetta hefur að sögn blaðsins orðið til þess að háttsettir embættismenn hafa horfið frá því að bera slík mál undir forsetann.
Wray lýsti því sem svo að það sé orðið ljóst að Rússar beiti samfélagsmiðlum, falsfréttum, áróðri og fölskum auðkennum til þess að steyta Bandaríkjamönnum gegn hvorum öðrum, til þess að sá fræjum óvildar á milli mismunandi hópa og til þess að grafa undan trausti bandarískra kjósenda á lýðræðinu.
Það gerist ekki einungis í aðdraganda kosninga, heldur 365 daga ársins. Fram kemur í frétt New York Times að nýlega hafi FBI fært 40 starfsmenn yfir í gagnnjósnadeild sína, vegna ógnarinnar sem stafar frá Rússum og öðrum óvildarmönnum Bandaríkjanna.