Ferðamaður lifði af tíu metra hátt fall út um glugga á lúxushóteli í Slóvakíu í vikunni, en hann opnaði gluggann fyrir slysni í leit að salerni.
Atvikið átti sér stað í skíðabænum Tatranska Lomnica í Slóvakíu. Ferðamaðurinn, sem er frá Tékklandi, dvaldi þar á lúxushóteli.
Samkvæmt slóvakískum miðlum átti atvikið sér stað skömmu eftir miðnætti þegar maðurinn, þá undir áhrifum áfengis, var í leit að salerni á staðnum en opnaði vitlausa hurð með fyrrgreindum afleiðingum.
Maðurinn var fluttur með sjúkrabíl til borgarinnar Poprad þar sem hann gekkst undir aðgerð, en hann hlaut innvortis áverka og margvísleg beinbrot í fallinu sem var um tíu metrar. Hann er nú sagður á batavegi.