Taldi fórnarlömbin vera múslima

mbl.is/Hjörtur

Karlmaður á fertugsaldri ók bifreið sinni á hóp gangandi vegfarenda í borginni Sunnyvale í Kaliforníu-ríki í Bandaríkjunum á þriðjudaginn með þeim afleiðingum að átta særðust, en maðurinn hefur viðurkennt að hafa ekið á fólkið af ásettu ráði.

Fram kemur í frétt AFP að við yfirheyrslur hafi maðurinn, Isaiah Peoples, ennfremur gefið þá skýringu á gerðum sínum að hann hafi talið að fólkið væri múslímar. Málið er fyrir vikið rannsakað sem hatursglæpur.

Þrír af þeim sem særðust tilheyra sömu fjölskyldunni að því er segir í fréttinni. Faðir, sonur hans og dóttir. Ennfremur kemur fram að ekki hafi verið veittar upplýsingar um þjóðerni eða trúarbrögð fórnarlambanna.

Haft er eftir lögreglunni í Sunnyvale að fyrir liggi að Peoples hafi ráðist á fólkið af ásetningi vegna kynþáttar þess og þeirri trú hans að það væri múslímar.

Lögmaður Peoples segir ljóst að rekja megi gerðir umbjóðanda síns til andlegra veikinda. Hyggst hann óska eftir greiningu sálfræðings á honum.  Peoples væri fyrrverandi hermaður og hugsanlega mætti rekja veikindi hans til þess.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert