Flugmenn og flugstjórar hjá flugfélaginu American Airlines vilja að meiri kröfur verði gerðar til þjálfunar fyrir 737 MAX-vélar flugvélaframleiðandans Boeing. Það sé nauðsynlegt til þess að endurbyggja traust almennings á vélunum.
Allar Max-vélar Boeing hafa verið kyrrsettar frá því að farþegaþota þeirrar gerðar í eigu Ethiopian Airlines hrapaði 10. mars sl. Sambærilegt flugslys átti sér stað í Indónesíu í október, en 346 manns létu lífið í flugslysunum tveimur.
Flugvélaframleiðandinn hefur undanfarnar vikur unnið að hugbúnaðarbreytingum sem eiga að koma í veg fyrir að svonefnt MCAS-kerfi bili, en það á að koma í veg fyrir að flugvélin ofrísi. Nú þegar Boeing býr sig undir að koma MAX-vélum sínum í gagnið á ný segja flugmenn American Airlines, sem á einn stærsta flota slíkra véla í heimi, að ganga þurfi lengra í þjálfun flugmanna á vélarnar.
Í umfjöllun Reuters um málið segir að Flugumferðarstofnun Bandaríkjanna (FAA) krefjist aðeins lítillar auka þjálfunar á MCAS-kerfið í tölvu. Ekki sé krafist að þjálfunin sé fullreynd í flughermi. Flugmenn vilja hins vegar að gengið sé lengra í þjálfuninni.
Boeing hefur sagt að álit flugmanna muni vega þungt í því að sannfæra almenning um að 737 MAX-vélarnar séu öruggar til flugs á ný.