Að minnsta kosti fimm manns létust er árás var gerð á kirkju í Búrkína Fasó í Vestur-Afríku í gær. Prestur er meðal hinna látnu. Stjórnvöld segja að öfgahópur íslamista hafi staðið að baki árásinni.
Árásin var gerð í smábænum Silgadji í norðurhluta landsins. Þetta er sögð fyrsta árásin sem gerð er á kirkju í Búrkína Fasó sem er meðal fátækustu ríkja Afríku.
„Óþekktir, vopnaðir einstaklingar gerðu árás á kirkju mótmælenda í Silgadji og drápu fjögur sóknarbörn og prestinn. Að minnsta kosti tveggja er enn saknað,“ hefur AFP-fréttastofan eftir heimildarmanni sínum innan lögreglunnar.