Þýska innanríkisráðuneytið telur að þar í landi séu um 24.000 hægri-öfgamenn og að ríflega helmingur þeirra, 12.700 hneigist til ofbeldis. Þetta kemur fram í frétt BBC um uppgang hægri-öfgamanna og nýnasista í Þýskalandi undanfarin misseri.
Yfirvöld í Þýskalandi hafa áður varað við því að vaxandi ógn stafi af þjóðernissinnuðum öfgahópum í landinu, en hafa nú lagt tölulegt mat á ógnina, í svari við fyrirspurn frá þingflokki Frjálsra demókrata (FDP).
Hundruð þjóðernissinnaðra öfgamanna gengu fylktu liði um bæinn Plauen í Saxlandi 1. maí, í göngu sem helstu samtök gyðinga í Þýskalandi segja að hefði aldrei átt að fá að fara fram. Saxland er í austurhluta Þýskalands, en þar hafa samtök öfgamanna hafa helst vaxið og dafnað.
Gangan var haldin í nafni nýnasistasamtakanna Þriðju leiðarinnar (Der Dritte Weg) og héldu göngumenn meðal annars á borða sem á stóð „félagslegt réttlæti í stað glæpsamlegra útlendinga“. Samkvæmt frétt BBC hafa leiðtogar vinstriflokksins Linke í Saxlandi lýst yfir vanþóknun á því að í göngunni hafi „nasistar í búningum fengið að marsera með kyndla og trommur.“
Stuðningur við þjóðernissinnaða flokka hefur vaxið í Þýskalandi undanfarin ár og nú er svo komið að hægriflokkurinn Annar kostur fyrir Þýskaland (AfD) er orðinn stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn á þinginu, eftir að hafa hlotið 12,6% atkvæða í kosningunum 2017. Í Saxlandi hlaut flokkurinn tæplega fjórðung atkvæða.
Þónokkrir öfgakenndari hópar hafa svo sprottið upp á jaðri stjórnmálanna og samkvæmt innanríkisráðuneytinu þýska er vel fylgst með þessum hópum. Hundruðir vefsíðna og samfélagsmiðlarása eru undir eftirliti þýskra yfirvalda, samkvæmt svari ráðuneytisins.
Ráðuneytið segir að öfgahóparnir skapi virkan vettvang á netinu til þess að koma áróðri sínum á framfæri og reyni svo að dreifa honum víðar.