Njósnarinn líklega þroskaþjálfi

Hvaldimir heitir hugsanlega Semjon og er meðferðarhvalur fyrir börn.
Hvaldimir heitir hugsanlega Semjon og er meðferðarhvalur fyrir börn. AFP

Mjaldurinn Hvaldimir, sem bjargað var undan ströndum Noregs, hefur verið grunaður um að vera hluti af starfsemi rússneska hersins. Hugsanlega er um mikil mistök að ræða þar sem mjaldurinn heitir líklega Semjon og hefur verið notaður við meðferð barna sem eiga við andlega erfiðleika að stríða, að því er fram kemur í umfjöllun norska miðilsins Fiskeribladet.

Fyrrverandi blaðamaður Fiskeribladet í Noregi segist hafa fjallað um Semjon og þátttöku mjaldra í verkefnum er tengjast úrræðum fyrir börn sem eiga við erfiðleika að stríða árið 2008.

Þekkti hann strax

„Hann hefur líklega stungið af frá meðferðarstöð nálægt landamærunum,“  hefur Fiskeribladet eftir Morten Vikeby, fyrrverandi blaðamanni og fyrrverandi ræðismanni í Múrmansk. „Ég þekkti hann strax aftur frá umfjöllun sem við gerðum. Myndbandið frá þeim tíma sýnir að þetta er meðferðarhvalur og því ekki skrýtið að hann þrífst meðal manna.“

Vikeby segir ólarnar sem voru á hvalnum hafi líklega verið þar þar sem hann dró stundum báta með börnum. „Þetta er ástæðan fyrir því að hann er svo félagslyndur.“

„Við höfum tengt þetta við njósnir og stríð, en svo er þetta bara hvalur sem vill mönnum vel. Hann er meira að segja nýttur til þess að knúsa okkur. Alveg ótrúlegt,“ segir Jørgen Ree Wiig, sérfræðingur hjá norsku hafrannsóknarstofnuninni.

Þurfti athvarf

Fyrir sextán árum varð mjaldurinn Semjon fyrir árás sæljóna og þurfti aðhlynningu manna. Var hann færður í athvarf fyrir utan Múrmansk og þangað komu börn frá almennum skólum, en sérstaklega sérhæfðum skólum. Var markmiðið að Semjon myndi aðstoða við meðferð barna sem áttu í andlegum erfiðleikum.

Ekki er talið ólíklegt að um sama mjaldur sé að ræða þar sem mjaldrar geta orðið 50 ára gamlir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka