Bandaríkin hafa ríflega tvöfaldað tolla á innfluttan varning frá Kína að andvirði 200 milljarða Bandaríkjadala. Eru tollarnir sem lagðir eru á vörurnar nú 25% í stað 10% eins og áður var.
Kína og Bandaríkin hafa staðið í viðskiptastríði um nokkurt skeið og má gera ráð fyrir að hækkunin nú auki umtalsvert á spennuna milli ríkjanna tveggja.
Samkvæmt frétt BBC af málinu var útlit fyrir að lausn deilunnar væri í sjónmáli eftir mánaðarlangar deilur, en til stóð að tollarnir yrðu hækkaðir í byrjun þessa árs. Hækkuninni var hins vegar frestað vegna góðs gengis samningaviðræðna. Trump tilkynnti svo síðastliðinn sunnudag að tollar yrðu hækkaðir í lok vinnuvikunnar.
Kínverjar hafa brugðist við hækkuninni með hækkun á innflutningstollum á bandarískar vörur til Kína.