Norskir, íslenskir og fleiri fjölmiðlar greindu frá því í janúar að til stæði að taka upp í Noregi nokkur atriði kvikmyndarinnar Bond 25, sem, eins og heitið líklega gefur til kynna, er 25. kvikmyndin um breska njósnarann og prúðmennið James Bond, og hefur nokkur hluti þeirrar vinnu nú þegar farið fram þegar atriði voru tekin upp í skóglendi í Nittedal í Akershus, nágrannafylki Óslóar.
Mikil leynd hvílir yfir öllu sem tengist gerð myndarinnar en leikstjóri hennar er Cary Joji Fukunaga sem upp á síðkastið hefur meðal annars leikstýrt endurgerð hrollvekjunnar It eftir skáldsögu Stephen King. Reiknað er með frumsýningu nýju Bond-myndarinnar í apríl 2020.
Norska ríkisútvarpið NRK hefur undir höndum umsókn þyrluþjónustunnar Nord Helikopter til norska loftferðaeftirlitsins um leyfi til að banna alla flugumferð yfir hinni myndrænu brú á Atlanterhavsveien í Mæri og Raumsdal tímabilið 5. til 14. júní og segir þar meðal annars: „Um er að ræða James Bond-kvikmynd sem hefur gríðarlega þýðingu fyrir viðskiptalífið á staðnum hvort tveggja til skamms og langs tíma litið auk þeirrar kynningar sem Noregur og Mæri fá sem áfangastaður ferðamanna.“
„Ég get staðfest að við höfum sótt um leyfi til að loka svæðinu,“ segir Øystein Skovro, talsmaður Nord Helikopter, við NRK í dag. Hann segir leyfisumsóknina gera ráð fyrir tveimur þyrlum fyrirtækisins á svæðinu, annarri fyrir kvikmyndatökur en hinni til að ferja fólk og búnað milli staða auk þess að vera varaþyrla forfallist hin.
Tökurnar eru ekki gefins og mun norska kvikmyndastofnunin reiða fram 47 milljónir norskra króna, tæpar 660 milljónir íslenskra, í hvatningarstyrk (n. intensivtilskudd) fyrir þá landkynningu sem fellur Noregi í skaut en skemmst er að minnast þess er atriði fyrir kvikmyndina Mission: Impossible 6 Fallout var tekið upp á klettinum Preikestolen í Rogaland og í kjölfarið óttast um varanlegar skemmdir á gróðri vegna ferðamannaflaumsins sem fylgdi þeim tökum.
Jafnvel er talið að framangreindir tökustaðir verði ekki látnir nægja, heldur muni framleiðandi myndarinnar, EON Productions, einnig stefna á tökur við Åndalsnes í Rauma í Raumsdal þar sem hrikalegt fjalllendi setur svip sinn á umhverfið með fjallinu Mannen, Trollstigen og Romsdalseggen auk margs kjörlendis svokallaðra BASE-stökkvara sem sumir hafa þar reyndar greitt fyrir áhugamál sitt með lífinu, síðast í fyrrasumar.
Einnig hafa staðir í Norður-Noregi verið nefndir þótt ekkert sé staðfest í þeim efnum, að sögn John Berge sem ritstýrir Bond-aðdáendasíðunni Jamesbond.no.
Ekki síðri frægðarverk en James Bond hafa litið dagsins ljós í norskri náttúru og má til að mynda nefna tökur upphafsatriðis Stjörnustríðsmyndarinnar The Empire Strikes Back, bardagann a plánetunni Hoth, sem tekið var á Hardangerjøkulen í Hörðalandi, um 100 kílómetra frá Bergen, veturinn 1979, einn grimmasta frostavetur sem íbúar þar muna og lét leikarinn Harrison Ford hafa það eftir sér að öðru eins helvíti og þeim tökum hefði hann ekki kynnst á sinni tíð.
Svo snjóþungur var sá vetur að atriði í myndinni, þar sem einhvers konar bjarndýr slær Loga geimgengil í rot og dregur hann inn í helli sinn, var tekið upp á hóteli starfsfólks myndarinnar í Finse, Finse 1222 sem svo heitir, og var hellismunninn í raun aðalinngangur hótelsins sem lausamjöll hafði þá skafið svo fyrir að ekkert sást af hótelinu sjálfu og spöruðu tökumenn sér þar mörg sporin með því að nýta hótelið í þetta atriði.