102 ára grunuð um morð

Konan sem nú er grunuð um morðið er sögð hafa …
Konan sem nú er grunuð um morðið er sögð hafa verið ringluð og í mjög miklu uppnámi er hún sagði starfsfólki að hún hefði drepið einhvern. Mynd úr safni.

102 ára gömul kona liggur nú undir grun um að hafa myrt 92 ára nágranna sinn á dvalarheimili í Frakklandi. Er konan nú vistuð á geðsjúkrahúsi, eftir að hún greindi starfsmanni á dvalarheimilinu frá því að hún hefði „myrt einhvern“.

Atburðurinn átti sér stað á dvalarheimili fyrir aldraða í Chézy-sur-Marne í norðurhluta Frakklands. Var það starfsmaður á dvalarheimilinu sem fann fórnarlambið látið í rúmi sínu aðfaranótt sunnudags, lá það þá á maganum og með mikla marbletti.

Krufning leiddi síðan í ljós að dánarorsök var kyrking og höfuðhögg, að því er BBC greinir frá.

Konan sem nú er grunuð um morðið er sögð hafa verið ringluð og í mjög miklu uppnámi er hún sagði starfsfólki að hún hefði drepið einhvern, að því er AFP-fréttaveitan hefur eftir saksóknara. Er hún nú látin undirgangast geðpróf til að ákvarða hvort hún teljist hafa verið ábyrg gjörða sinna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert