Græningjar, frjálslyndir og þjóðernissinnar eru sigurvegarar Evrópuþingkosninganna sem lauk í gær. Kjörsókn jókst til muna frá kosningunum fyrir fimm árum, og fór úr 41% í 51%. Er það í fyrsta sinn frá stofnun Evrópuþingsins árið 1979 sem kjörsókn dregst ekki saman milli kosninga.
Tvö stærstu flokkabandalögin á þinginu, jafnaðarmenn (S&D) og bandalag hófsamra hægriflokka (EPP), tapa hvort um sig um 40 sætum og hafa í fyrsta sinn frá stofnun Evrópuþingsins ekki samanlagðan meirihluta þingsæta þrátt fyrir að vera eftir sem áður stærstu tvö bandalögin á þinginu.
Frans Timmermans, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB og frambjóðandi jafnaðarmanna til forsætis nú, segir niðurstöður kosninganna endurspegla þá þróun sem átt hefur sér stað víðs vegar í álfunni. Hið pólitíska landslag sé orðið fjölbreyttara og flokkarnir þurfi að laga sig að því.
Græningjar fá 70 sæti á þinginu, 20 fleiri en í kosningunum fyrir fimm árum og skrifast það einkum á góðan árangur í Þýskalandi þar sem flokkurinn tvöfaldaði fylgi sitt og er nú næststærstur á eftir Kristilegum demókrötum, flokki Merkel kanslara.
ALDE, bandalag frjálslyndra, bætir við sig 40 sætum og munar mestu um REM, flokk Emmanuel Macron sem gekk til liðs við bandalagið fyrir skemmstu. Flokkurinn hlaut um 21% atkvæða. Flokkurinn varð þó að lúta í lægra haldi fyrir Þjóðfylkingu Marine Le Pen, sem hlaut 22% atkvæða.
Þjóðernissinnum gekk líka víða vel. Á Ítalíu stóð Lega, bandalag Mattio Salvini innanríkisráðherra, uppi sem sigurvegari en flokkurinn fékk um 30% atkvæða. Flokkurinn tilheyrir hinu nýstofnaða bandalagi Marine Le Pen, Europe of People and Nations, á Evrópuþinginu en þar eru komnir saman helstu andstæðingar Evrópusambandsins. Sömu sögu er þó ekki að segja af Danmörku, þar sem Danski þjóðarflokkurinn beið afhroð, helmingaði fylgi sitt og missti þrjú af fjórum sætum sínum. Þá hlaut hinn hollenski Frelsisflokkur Geert Wilders einungis 4% atkvæða, það minnsta í áratug.
Bandalag hægriflokka (EPP), jafnaðarmenn (S&D) og frjálsyndir (ALDE) mynduðu meirihluta á þinginu síðasta kjörtímabil og hefur Jean-Claude Juncker, oddviti EPP og fyrrverandi forsætisráðherra Lúxemborgar, gegnt embætti forseta framkvæmdastjórnar ESB síðastliðin fimm ár en það er, ásamt forseta leiðtogaráðsins, valdamesta embætti sambandsins. Kjörtímabil Junckers rennur út í nóvember og gefur hann ekki kost á sér til endurkjörs.
Alls er þó óvíst hver tekur við embættinu. Þótt flokkabandalögin á Evrópuþinginu hafi í kosningunum um helgina stillt upp oddvitum sínum sem frambjóðendum í embættið er ekki þar með sagt að sigurvegari kosninganna hljóti útnefninguna.
Skipan forseta framkvæmdastjórnarinnar er nefnilega í höndum leiðtogaráðs Evrópusambandsins, en í því situr æðsti forseti eða forsætisráðherra hvers aðildarríkis. Í Lissabon-sáttmálanum er kveðið á um að leiðtogaráðið skuli þó hafa niðurstöður þingkosninganna til hliðsjónar enda þarf Evrópuþingið á endanum að staðfesta tilnefningu ráðsins.
Þannig hefur Michel Barnier, aðalsamningamaður Evrópusambandsins í viðræðunum um útgöngu Breta úr sambandinu, verið nefndur sem mögulegur kandídat í starfið án þess þó að hann hafi komið nærri þingkosningunum.
Leiðtogar Evrópusambandsríkja funda á morgun í Brussel til að ræða niðurstöður kosninganna en ekki má þó eiga von á neinni niðurstöðu af þeim fundi. Hennar er fyrst að vænta eftir formlegan leiðtogafund, sem haldinn verður 20.-21. júní.