Ökumaður í Þýskalandi slapp með skrekkinn nýlega þegar hvít dúfa breiddi út vængi sína og huldi andlit ökumannsins fyrir hraðamyndavélum.
Í glaðværri yfirlýsingu frá lögreglunni í Viersen segir að kannski hafi afskipti „hins heilaga anda“ alls ekki verið tilviljum og vísar þannig í dúfuna sem tákn um heilagana anda í kristinni trú.
„Við tökum táknið gilt og leyfum ökufantinum að fara í friði,“ segir í tilkynningu lögreglunnar, sem vonar samt sem áður að ökumaðurinn taki „skilaboðunum að ofan“ og aki í takt við aðstæður í framtíðinni.
Það er svo sem ekki um gríðarlegan ökufant að ræða, en ökumaðurinn var á 54 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 30 kílómetrar. Þar sem dúfan hylur andlit hans og einungis er hægt að bera kennsl á ökutækið mun hann að öllum líkindum sleppa við 105 evru sektina, eða sem nemur tæpum 15.000 krónum, þar sem ekki er hægt að bera kennsl á þann sem situr á bak við stýrið.
Lögreglan íhugaði einnig að sekta dúfuna, sem var sjálf á alltof miklum hraða, en erfiðlega hefur gengið að hafa uppi á henni. Lögreglan telur að líklega hafi hún verið að koma sér á áfangastað fyrir Hvítasunnu, en lögreglan sé ekki í annarri stöðu en að sýna henni miskunn.