Segir Trump eins og 20. aldar fasista

Þessi Trump-blaðra var sett á loft síðast þegar Bandaríkjaforseti heimsótti …
Þessi Trump-blaðra var sett á loft síðast þegar Bandaríkjaforseti heimsótti Bretland. AFP

Sadiq Khan, borgarstjóri Lundúna, líkti Donald Trump Bandaríkjaforseta við 20. aldar fasista. Von er á Trump í opinbera heimsókn til London á mánudag og lét Khan þessi orð falla í grein sem hann fékk birta í breska dagblaðinu The Observer í dag.

Fordæmdi Khan í grein sinni þær viðhafnarviðtökur sem Trump á að fá, en forsetinn og forsetafrúin Melania Trump verða gestir Elísabetar Bretadrottningar í þriggja daga heimsókn sinni. Búist er við að mikill fjöldi eigi eftir að koma saman í London á þriðjudag til að mótmæla komu Trump.

„Donald Trump Bandaríkjaforseti er eitt svívirðilegasta dæmið um vaxandi hnattræna ógn. Hægri öfgaflokkum er að vaxa styrkur víða um heim, þeir ógna réttindum sem við höfum öðlast með mikilli vinnu og frelsi og gildum sem hafa skilgreint okkar frjálslyndu lýðræðisþjóðfélög í rúm 70 ár,“ skrifaði Khan.

Sadiq Khan borgarstjóri Lundúna er ósáttur við viðtökurnar sem Trump …
Sadiq Khan borgarstjóri Lundúna er ósáttur við viðtökurnar sem Trump á að fá í opinberri heimsókn sinni til Bretlands. AFP

Hafa náð völdum sem hefðu verið óhugsandi fyrir nokkrum árum

Sagði hann Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, Matteo Salvini, innanríkisráðherra Ítalíu, Marine Le Pen, leiðtoga franska Þjóðarflokksins, og svo Nigel Farage, leiðtoga Brexit-flokksins, nota sömu „sundrungarklisju 20. aldar fasisma til að afla sér stuðnings, en með nýjum óheillavænlegum aðferðum til að koma skilaboðum sínum á framfæri. „Þeim er að vaxa styrkur og þau eru að auka völd sín og áhrif á stöðum sem hefðu verið óhugsandi fyrir nokkrum árum.“

Khan hefur deilt við Trump frá því hann varð borgarstjóri London árið 2016. Vakti hann því einnig máls á því að Trump hefði reynt að nýta sér ótta Lundúnabúa í kjölfar hryðjuverkaárása, hann hefði magnað upp Twitter-skilaboð breskra hægriöfgasamtaka, hann hefði hafnað traustum vísindalegum viðvörunum um hættuna af loftslagsvánni sem falsfréttum. „Og nú er hann að reyna að blanda sér með óskammfeilnum hætti í leiðtogakjör Íhaldsflokksins með því að lýsa yfir stuðningi við Boris Johnson af því að hann telur það veita sér og klofningsstefnu sinni bandamann á númer 10 [bústað breska forsætisráðherrans],“ skrifar Khan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert