Fyrsta ferðamannalestin sem fer um þau svæði Rússlands sem liggja norðan við heimskautsbaug var tekin í gagnið í dag. Hún lagði upp frá St. Pétursborg í vesturhluta Rússlands og heldur norður, til hafnarborgarinnar Múrmansk á Kólaskaga, með 91 farþega innanborðs.
„Norðurslóðir heilla alla,“ segir Nurlan Mukash, framkvæmdastjóri þýskrar ferðaskrifstofu sem stendur á bak við verkefnið, í samtali við AFP-fréttastofuna. Hann segir að ferðamönnum hafi staðið til boða að ferðast norður fyrir heimskautsbaug í skipulögðum ferðum bæði í Kanada og Noregi, en að slíkt hafi aldrei verið gert áður á rússneskri grundu.
Ferðin sem boðið er upp á tekur 11 daga, samkvæmt frétt AFP, og munu farþegar fara yfir landamærin til Noregs með rútu eftir að lestin staðnæmist í Múrmansk. Frá Norður-Noregi munu farþegar svo annað hvort sigla með skipi niður með ströndum Noregs og alla leið til Óslóar ellegar fljúga til eyjunnar Spitsbergen, sem er stærsta eyjan á Svalbarða.
Ferðamennirnir sem eru með í þessari skipulögðu för eru sem áður segir 91 talsins og koma frá sjö ríkjum, meðal annars Þýskalandi, Noregi, Bandaríkjunum og Rússlandi.
Mukash segir við AFP að vonir standi til þess að framhald verði á lestarferðum ferðaskrifstofunnar og að tvær ferðir séu skipulagðar á næsta ári og fjórar árið 2021.