„Veistu hvað ég heiti?“

Frakkar fagna marki í opnunarleik HM gegn Suður-Kóreu í kvöld …
Frakkar fagna marki í opnunarleik HM gegn Suður-Kóreu í kvöld þar sem þær frönsku unnu öruggan 4:0-sigur. AFP

„Við spilum fyrir þjóð sem veit ekki einu sinni hvað við heitum. Við höfum orðið Evrópumeistarar þrisvar ekki satt? Rangt, við höfum unnið átta sinnum.“

Svona hefst nýtt auglýsingamyndband þýska kvennalandsliðsins sem keppir á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu sem hófst í kvöld. Mótið er talin marka ákveðin vatnaskil í sögu kvennaknattspyrnu, en líklega hafa konur aldrei fengið jafn mikið sviðsljós í íþróttinni og nú.

Framkvæmdarstjóri FIFA, Fatma Samoura, sagði í viðtali við CNN að mótið væri líklegast það mikilvægasta í sögunni, en aldrei fyrr hafa jafn miklir hæfileikar verið í kvennaknattspyrnu og nú. Að sama skapi hefur kvennaknattspyrnu líklegast aldrei verið gert jafn hátt undir höfði og á þessu áttunda Heimsmeistaramóti.

Fatma Samoura, framkvæmdarstjóri FIFA.
Fatma Samoura, framkvæmdarstjóri FIFA. AFP

Í umfjöllun CNN segir að keppnin bjóði upp á viðhorfsbreytingu og boði stórt stökk fram á við fyrir baráttu kvenna til jafnréttis í íþróttum.

HM kvenna fór fyrst fram árið 1991 og því má segja að mótið sé ennþá á frumárum sínum. Met áhorf og aðsókn var á mótið árið 1999 þegar það var haldið í Bandaríkjunum og enn þann dag í dag hafa aldrei fleiri áhorfendur mætt á íþróttaviðburð kvenna og úrslitaleik mótsins.

Mótið verður haldið í Frakklandi í ár og hafa leikvangarnir ekki rými til að slá metið frá 1999 þegar yfir 90.000 manns mættu á völlinn. Aftur á móti er allt útlit fyrir að sjónvarpsáhorfsmetið frá 2015 þegar um 750 milljón manns um heim allan horfðu á mótið verði auðveldlega slegið.

Seldist upp á innan við 48 tímum

Í apríl tilkynnti FIFA að miðasölur væru að „slá öll met,“ og miðar á opnunarleikinn í dag, undanúrslitaleikina og úrslitaleikinn í byrjun júlí seldust upp á innan við 48 klukkustundum.

Athyglin á mótið í ár er raunar svo mikil að eldri leikmenn hefðu viljað spila aftur. Fyrir þær konur sem ólust upp í íþróttinni við fordóma og erfiðleika við að finna sér lið hefur árangur síðustu ára komið á óvart.

„Þetta hefur komið á óvart, athyglin sem kvennaknattspyrna fær núna,“ segir Kelly Smith, einn besti leikmaður í sögu enska kvennalandsliðsins við CNN.

„Ákveðnar þjóðir eru að fjárfesta meira í þessu. FIFA hefur opnað á mótið fyrir 24 lið svo að fleiri lönd eru að fá að upplifa svona keppni.“

Kelly Smith.
Kelly Smith. AFP

„Þegar ég var að spila voru bara tvö eða þrjú lið sem gætu mögulega unnið Heimsmeistaramót. Núna get ég nefnt sex til átta lið sem geta gert eitthvað sérstakt á mótinu sem eykur samkeppnina og gerir það skemmtilegra fyrir áhorfendur.

„Svo eru líka bara svo margar flottar sögur af þessum konum. Það er mikið af samfélagsmiðlaherferðum að kynna leikmennina og liðin. Það er miklu meiri sýnileiki og athygli núna sem var bara ekki til staðar þegar ég var að spila,“ segir Smith.

Senda skýr skilaboð í auglýsingaherferð

Fræg andlit á borð við David Beckham, Emmu Watson og Vilhjálm Bretaprins kynntu leikmennina 23 sem fara til Frakklands fyrir hönd Englands, sem gerir það líklega að verkum að afhjúpun liðsins fær aukna athygli.

Lið Þýskalands, sem hefur unnið mótið tvisvar, hefur einnig tekið þátt í áhrifamikilli og frumlegri auglýsingaherferð sem sendir skýr skilaboð.

Myndbandið var búið til af styrktaraðilum liðsins og sýnir ef til vill aukinn áhuga fyrirtækja á að tengja nöfn sín við kvennaknattspyrnu, sem er líklega ein helsta ástæða aukinnar fjárfestingar í íþróttinni.

Aukið brautargengi kvennaknattspyrnu á ekki síst rætur sínar að rekja til þeirrar samfélagsbreytingar sem fylgdi #Metoo hreyfingunni þarsíðasta haust. Síðan þá hefur FIFA lagt aukna áherslu á kvennaknattspyrnu og greindu samtökin í fyrra frá fimm ára áætlun sinni til að ryðja fyrir íþróttinni. Er liður í þeirri áætlun að skylda öll 211 aðildarríkin til að leggja fram alhliða áætlun fyrir kvennaknattspyrnu í hverju landi fyrir sig fyrir árið 2022.

Sigurlaun karlanna hærri en mótskostnaður kvennanna

FIFA segist vilja tvöfalda þátttöku kvenna í íþróttinni úr 30 milljónum í 60 milljónir um heim allan fyrir árið 2026 og segir að í kvennaknattspyrnu felist mörg tækifæri. FIFA hefur þó sætt mikilli gagnrýni fyrir fjármögnun mótsins.

Fjármagnið var hækkað úr 15 milljónum Bandaríkjadollara árið 2015 í 30 milljónir dollara í ár, en Heimsmeistaramót karla árið 2018 kostaði um 400 milljónir dollara og fékk sigurlið Frakklands 38 milljónir dollara fyrir sigurinn sem er talsvert meira en lagt var til alls mótshalds í ár.

Fjarvera norsku stjörnunnar Ödu Hegerberg, sem er fyrsta konan til að hljóta hinn víðfræga Gullbolta og er almennt talin vera besti leikmaður í heimi, hefur einnig varpað ákveðnum skugga á mótið í ár.

Ada Hegerberg vann Meistaradeild Evrópu með félagsliði Lyon.
Ada Hegerberg vann Meistaradeild Evrópu með félagsliði Lyon. AFP

Hegerberg hætti í norska landsliðinu því hún vill sjá ungar norskar stúlkur í knattspyrnu fá sömu tækifæri og efnilegir karlkyns knattspyrnumenn og það var að hennar sögn ekki raunin innan norsku landsliðana.

Afstaða hennar varpar ef til vill fram spurningunni um hvernig heimurinn myndi bregðast við ef Lionel Messi eða Cristiano Ronaldo neituðu að spila fyrir þjóðir sínar á Heimsmeistaramóti af sömu ástæðu.

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert