Mannréttindasamtökin Amnesty International hvetja stjórnvöld í Sádi-Arabíu til að útiloka dauðarefsingu á hendur unslingspilti sem var handtekinn fyrir fimm árum síðan, þá 13 ára gamall.
Murtaja Qureiris var handtekinn fyrir að taka þátt í mótmælum gegn ríkisstjórn Sádi-Arabíu og hefur verið í varðhaldi undanfarin fimm ár. Hann mótmælti óréttlæti sem sjíta-múslimar eru beittir í olíuríkinu.
Qureiris gæti átt yfir höfði sér dauðarefsingu fyrir fjölda brota sem hann er sakaður um. Sum þeirra á Qureiris að hafa framið þegar hann var tíu ára gamall, samkvæmt Amnesty.
Saksóknarar í Sádi-Arabíu fóru fram á dauðarefsingu yfir Qureiris í ágúst í fyrra. Er pilturinn sakaður um að hafa tekið þátt í „mótmælum gegn stjórnvöldum, að hafa mætt í jarðarför bróður síns sem var myrtur í mótmælum árið 2011, sakaður um að hafa gengið til liðs við hryðjuverkasamtök“ og fleira eins og fram kemur í yfirlýsingu Amnesty.
Qureiris var handtekinn þegar hann ætlaði að ferðast með fjölskyldu sinni til Barein fyrir fimm árum. Honum hefur síðan verið haldið föngnum og var meinað að ræða við lögfræðing þar til í ágúst í fyrra.
Lynn Maalouf sem starfar hjá Amnesty International segir að það sé hræðilegt að Qureiris gæti verið dæmdur til dauða fyrir að hafa tekið þátt í mótmælum þegar hann var tíu ára gamall.
„Stjórnvöld í Sádi-Arabíu eru þekkt fyrir að nota dauðarefsingu til að brjóta niður pólitíska óhlýðni og mótmæli gegn stjórnvöldum,“ segir Maalouf og bætir við að engu máli skipti þó börn eigi þar í hlut.
Stjórnvöld í Sádi-Arabíu voru gagnrýnd harðlega í apríl þegar 37 manns voru hálshöggnir á grundvelli hryðjuverkalaga. Flestir mannanna áttu það sameiginlegt að vera sjíta-múslimar, sem eru í minnihluta í olíuríkinu.
Að minnsta kosti einn mannanna var krossfestur en þá refsingu hljóta þeir sem framið hafa sérstaklega alvarlega glæpi í Sádi-Arabíu. Einnig er það gert til að vara fólk við afleiðingum glæpa og óhlýðni.