Johnson hlutskarpastur í fyrstu umferð

Boris Johnson fagnar í dag.
Boris Johnson fagnar í dag. AFP

Fyrstu umferð leiðtogakjörs breska Íhaldsflokksins er lokið. Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra og borgarstjóri í London, var atkvæðamestur og hlaut 114 atkvæði frá þeim 313 þingmönnum Íhaldsflokksins sem hafa atkvæðisrétt. Næstur kom Jeremy Hunt, núverandi utanríkisráðherra, með 43 atkvæði og því næst Michael Gove umhverfisráðherra sem einnig sóttist eftir útnefningunni árið 2016, með 37 atkvæði. 

Tíu sóttust eftir að taka við af Theresu May sem formaður Íhaldsflokksins og um leið forsætisráðherra Bretlands, en þeir þingmenn, sem ekki náðu sautján atkvæðum, falla nú úr leik. Var það hlutskipti Esther McVey, Mark Harper og Andreu Leadsom, sem varð önnur í kjörinu 2016 er Theresa May varð hlutskörpust.

Þar með er þó ekki sagt að Boris Johnson hljóti útnefninguna. Í fréttaskýringu BBC er rifjað upp að David Davis, sem um stund gegndi stöðu Brexit-ráðherra, hlaut flest atkvæði í fyrstu umferð árið 2005 þegar David Cameron var síðan kjörinn formaður.

Næsta umferð fer fram eftir helgi og munu þeir sjö sem eftir standa þurfa 33 atkvæði til að halda velli. Þannig spilast leikurinn þar til tveir standa eftir og verður þá kosið á milli þeirra í allsherjarkosningu meðal meðlima Íhaldsflokksins en von er á að niðurstaða liggi fyrir 22. júlí. Svo gæti þó farið að ekki komi til allsherjarkosningar ef frambjóðendur, sem telja sigurmöguleikana litla, gefist upp. Þannig var Theresa May að lokum sjálfkjörin árið 2015 eftir að Andrea Leadsom dró sig hlé.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert