Ökumaðurinn undir áhrifum fíkniefna

Rafmagnshlaupahjól er hægt að leigja í París í gegnum smáforrit.
Rafmagnshlaupahjól er hægt að leigja í París í gegnum smáforrit. AFP

Flutningabílstjóri sem lenti í árekstri við rafmagnshlaupahjól á mánudagskvöldið með þeim afleiðingum að ökumaður hjólsins lést, var undir áhrifum fíkniefna. Þetta kom fram í máli saksóknara í París í morgun. 

Áreksturinn varð í Goutte d'Or, sem er í 18. hverfi Parísarborgar en þessi hluti hverfisins er einkum þekktur fyrir líflegan markað,  le marché Dejean. Sá sem var á hlaupahjólinu, 25 ára gamall karlmaður, var fluttur með hraði á sjúkrahús þar sem hann lést skömmu síðar. Þetta er fyrsta banaslysið þar sem rafmagnshlaupahjól á í hlut í höfuðborg Frakklands en slík ökutæki njóta sívaxandi vinsælda. Mjög hefur verið tekist á um öryggismál tengd slíkum hjólum þar í landi sem og víðar. 

Þegar áreksturinn varð átti flutningabílstjórinn forgang en ökumaður hlaupahjólsins hunsaði rétt flutningabílsins með þeim afleiðingum að flutningabíllinn ók á hann. Þrátt fyrir að rétturinn hafi verið flutningabílstjórans hófst lögreglurannsókn á atvikinu í dag og er málið rannsakað sem manndráp af gáleysi þar sem bílstjórinn var undir áhrifum fíkniefna, að sögn saksóknara. 

Aðdáendur slíkra rafmagnshlaupahjóla hafa fagnað mjög komu þeirra til Parísarborgar enda afar umhverfisvænn fararskjóti. Hægt er að leigja slík hlaupahjól í gegnum smáforrit, líkt og reiðhjól, og þeim skilað annars staðar. 

(
( AFP

Gagnrýnendur segja aftur á móti að rafmagnshlaupahjólin séu stórhættuleg í umferðinni, ekki bara fyrir ökumennina sjálfa heldur gangandi enda virðist sem margir þeirra sem aka slíkum hlaupahjólum virði ekki umferðarreglur nema þegar þeim hentar. Til að mynda séu þau algeng á gangstéttum og stígum þrátt fyrir að Parísarborg hafi þegar bannað akstur rafmagnshlaupahjóla á göngustígum og gangstéttum og þeir sem verða uppvísir af því þurfa að greiða 135 evrur í sekt fyrir brotið. Jafnframt er búið að banna að þeim sé lagt á gangstéttum og stígum. Hámarkshraði þeirra er 20 km á klukkustund á götum borgarinnar.

Fyrir tveimur mánuðum lést rúmlega áttræður maður í Levallois-Perret ekki langt frá París eftir að ekið var á hann af rafmagnshlaupahjóli.

Le Monde

France Bleu

Le Figaro

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert