Sprengingar urðu í tveimur olíuskipum á Ómanflóa nú í morgun og segir BBC bandaríska sjóherinn hafa greint frá að hann hafi aðstoðað við brottflutning á áhöfnum skipanna eftir að hafa fengið neyðarkall frá þeim hvoru í sínu lagi.
Fjölmiðlar á staðnum hafa sagt sprengingu og síðar eld hafa komið upp í olíuskipunum Front Altair og Kokuka Courageous, sem sigla annars vegar undir fána Marshall-eyja og hins vegar fána Panama. Áhafnir beggja skipa hafa nú verið fluttar á brott heilar á húfi að sögn Reuters-fréttaveitunnar.
Hvorki eigendur olíuskipanna né stjórnvöld ríkja á svæðinu hafa hins vegar enn staðfest að sprenging hafi orðið.
Ekki er nema mánuður frá því að árás var gerð á fjögur olíuskip úti fyrir ströndum Sameinuðu arabísku furstadæmanna, sem hafa sagt ónefnt ríki standa að baki árásunum.
Bandarísk yfirvöld hafa hins vegar fullyrt að írönsk stjórnvöld standi að árásunum, en þeim ásökunum hafa stjórnvöld í Íran harðneitað. Árásirnar hafa hins vegar aukið enn frekar á langvarandi spennu í samskiptum Írans við Bandaríkin og bandamenn þeirra við Persaflóa.
Bloomberg-fréttaveitan greindi frá því í morgun að verð á olíu hafi hækkað um 3,9% í kjölfar atviksins í dag.