Sakar New York Times um landráð

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti sakaði í gær ritstjórn The New York Times um landráð eftir að fjölmiðillinn birti grein um að Bandaríkin væru sífellt að bæta í  tölvuárásir á rafveitukerfi Rússlands.

Fjölmiðillinn hefur þetta eftir núverandi og fyrrverandi starfsmönnum varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna.

Árásirnar eru sagðar vera fyrst og fremst aðvörun til rússneskra stjórnvalda en einnig liður í undirbúningi undir átök milli landanna.

Trump fór mikinn á samfélagsmiðlinum Twitter í kjölfar birtingar greinarinnar og sagði fjölmiðla vera „spillta“ og blaðamenn NYT væru „sannir hugleysingjar“ sem og „óvinir fólksins“. Hann þvertók fyrir sannleiksgildi greinarinnar og sagði birtingu hennar vera landráð.

Fjölmiðillinn var ekki lengi að svara fyrir birtingu greinarinnar og svaraði Trump meðal annars með því að segja að það væri hættulegur leikur að saka fjölmiðla um landráð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert