Próflausir á rafbyssu – skutu mann

Lögregla og sjúkralið á vettvangi í morgun eftir að lögregluþjónn …
Lögregla og sjúkralið á vettvangi í morgun eftir að lögregluþjónn skaut tæplega sextugan mann í fótinn sem sveiflaði hníf í kringum sig og hafði haft í hótunum við farþega og vagnstjóra sporvagns númer 13 við Solli plass. Ljósmynd/Skjáskot úr frétt VGTV af vettvangi

Farþegar og ökumaður sporvagns númer 13 í Ósló urðu fyrir heldur óskemmtilegri reynslu á tíunda tímanum í morgun að norskum tíma við Solli plass þegar tæplega sextugur maður í jakkafötum dró skyndilega upp hníf og tók að hóta viðstöddum, að minnsta kosti vagnstjóranum og einum farþega, auk þess sem hann fullyrti að hafa handsprengju í fórum sínum.

Vagnstjóranum auðnaðist að hafa samband við lögreglu sem sendi þegar tíu bifreiðar, hunda og vopnaða lögreglumenn á staðinn. Leikurinn barst að því búnu út úr sporvagninum og hafa norskir fjölmiðlar í dag birt myndskeið frá vegfaranda sem sýnir lögreglu króa þann jakkafataklædda af á grasflöt skammt frá og að lokum skjóta hann í fótinn eftir að hann lét öll fyrirmæli sem vind um eyru þjóta og sveiflaði hníf sínum kringum sig.

Sjónarvottar segja lögreglu hafa skotið tveimur viðvörunarskotum og auk þess beitt piparúða sem ekki hafði tilætluð áhrif. Maðurinn var fluttur á Ullevål-sjúkrahúsið þar sem hann liggur nú og er með meðvitund. Lögregla segist þekkja vel til mannsins sem eigi sér sögu um hótanir, en ekkert hefur fengist uppgefið um hverju þá var hótað né hvað það var sem maðurinn hótaði í sporvagninum í morgun.

Mjög fáir lokið rafvopnanámskeiði

Lögreglan hélt blaðamannafund um atvikið klukkan 13 í dag að norskum tíma og varð þar fyrir svörum Martin Strand rannsóknarlögreglumaður. Norska ríkisútvarpið NRK vildi vita hvers vegna rafbyssum var ekki beitt gegn jakkafatamanninum áður en gripið var til þess að skjóta hann í fótinn með skammbyssu.

„Hjá okkur hérna í Óslóarlögreglunni hafa bara mjög fáir lokið námskeiðinu í beitingu rafmagnsvopna og svo vildi til að enginn þeirra var á staðnum þegar þetta mál kom upp,“ svaraði Strand.

Lögregla öskrar lokaviðvörun sína á manninn í jakkafötunum sem mundaði …
Lögregla öskrar lokaviðvörun sína á manninn í jakkafötunum sem mundaði hníf og sagðist vera með handsprengju í tösku sinni. Einhverjum kann að verða hugsað til kvikmyndarinnar Falling Down frá 1993 sem Michael Douglas gerði svo fræga í hlutverki hins öskureiða og vel klædda samfélagsrýnis William Foster. Maðurinn í morgun var þó ekki skotinn til bana og jafnar sig nú á Ullevål-sjúkrahúsinu. Ljósmynd/Skjáskot úr myndskeiði vegfaranda

Ekki er langt síðan norsku lögreglunni var heimilað að bera og beita rafmagnsvopnum og voru nokkur umdæmi landsins valin sem sérstök prufuumdæmi þar sem almennir lögreglumenn bera slík vopn og hafa að setnum tilskildum námskeiðum heimild til að beita þeim. Í Ósló hefur aðeins sérsveit lögreglunnar, „Delta-troppen“, enn sem komið er heimild til að beita slíkum vopnum.

„Lögreglumenn á vettvangi beittu þess vegna staðlaðri skammbyssu [n. standard pistol],“ útskýrði Strand, en það vopn almennra lögreglumanna í Ósló er Heckler & Koch P30.

Samkvæmt starfsreglum lögreglunnar hefur sérstakri rannsóknardeild í innri málefnum hennar (n. Spesialenheten i politisaker) verið tilkynnt um beitingu skotvopns á vettvangi.

Dagblaðið VG ræðir við Jan Rustad, talsmann Sporveien sem rekur meðal annars sporvagna Óslóar. Hann segir líðan vagnstjórans eftir atvikum, „Þú getur bara ímyndað þér það sjálfur að láta veifa hníf við andlitið á þér,“ útskýrir hann fyrir blaðamanni. Nokkrir sporvagnar á nærliggjandi leiðum hættu akstri þegar atvikið kom upp í morgun.

Marit Storeng hjá rannsóknardeild í innri málefnum lögreglunnar segir við VG að deildin hafi lokið sinni rannsókn og þiggi nú aðstoð rannsóknarlögreglunnar Kripos við ákvörðun um hvort lögreglumönnum á vettvangi hafi verið stætt á að beita skotvopni miðað við aðstæður.

Aftenposten

Dagbladet

TV2

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert