20 bandarískir milljarðarmæringar sendu skýr skilaboð til vongóðra forsetaframbjóðenda í dag með því að hvetja frambjóðendur til að hækka skatta á bandaríska auðstétt svo að hægt sé að leggja aukið fjármagn í aðgerðir gegn loftslagsvánni og öðrum forgangsmálum.
„Bandaríkin bera siðferðislega og efnahagslega ábyrgð á því að skattleggja auð okkar meira,“ sagði hópurinn, en að honum standa auðmenn á borð við George Soros, Facebook-meðstofnandann Chris Hughes, afkomendur Walt Disney og eigendur hótelkeðjunnar Hyatt.
„Auðlegðarskattur gæti hjálpað okkur að berjast við hamfarahlýnun, bætt hagkerfið, bætt heilsufar, skapað sanngjörn tækifæri og styrkt lýðræðislegt frelsi. Að koma á auðlegðarskatti er í þágu lýðveldis okkar.“
Þá var einnig vakin athygli á því að milljarðarmæringurinn Warren Buffet hafi eitt sinn haft það á orði að hann borgi hlutfallslega lægri skatta en aðstoðarkona hans.
Í bréfinu má sjá þverpólitískan stuðning við auðlegðarskatt og kemur þar fram að „sumar hugmyndir eru of mikilvægar fyrir Bandaríkin til að vera aðeins hluti af stefnumálum nokkurra frambjóðenda.“
Þá var þingkonunni Elizabeth Warren lofað töluvert fyrir tillögu sína um að hækka skatta á þá sem hafa tilteknar tekjur, en tillagan myndi hafa áhrif á 75.000 auðugustu fjölskyldur Bandaríkjanna.
Undir bréfið skrifuðu 18 einstaklingar í forsvari fyrir 11 fjölskyldur auk eins nafnlaus einstaklings.