Tveir í lífshættu eftir skotárás í Stokkhólmi

Lögreglan vill ekki gefa upp hvort árásin tengist uppgjöri gengja. …
Lögreglan vill ekki gefa upp hvort árásin tengist uppgjöri gengja. Mynd úr safni. AFP

Tveir menn eru í lífshættu eftir skotárás í norðurhluta Stokkhólms síðdegis. Árásin átti sér stað í Sollentuna-hverfinu og standa lögregluaðgerðir enn yfir á svæðinu, sem hefur verið girt af. 

Mennirnir voru fluttir á bráðamóttöku og liggja þeir báðir á gjörgæsludeild. 

Sjónarvottur segir í samtali við fréttastofu SVT að nokkrir skothvellir hefðu heyrst á svæðinu. Ola Österling, upplýsingafulltrúi lögreglunnar, staðfestir að lögreglunni hafi borist ábendingar um skothvelli í hverfinu síðdegis og að lögregluvakt sé í hverfinu. 

Lögreglan vill ekki gefa upp hvort árásin tengist uppgjöri gengja, en skömmu eftir skotárásina barst lögreglu tilkynning um aðra skotárás, í Järfälla-hverfinu, þar sem maður var skotinn í fótinn. Lögregla vill ekki gefa upp hvort talið sé að árásirnar tengist.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert