Ríkisfjölmiðlar í Norður-Kóreu segja heimsókn Donalds Trump Bandaríkjaforseta til landsins „ótrúlegan viðburð“, en Trump varð í gær fyrsti sitjandi forseti Bandaríkjanna til þess að stíga fæti á norður-kóreska grundu.
Trump tók alls 20 skref í Norður-Kóreu, en hann fór þess á leit með færslu á Twitter að fá að hitta Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, á meðan sá fyrrnefndi heimsækti Suður-Kóreu í opinberum erindagjörðum.
Íbúar Norður-Kóreu fá sjaldan fréttir utan úr heimi og stjórnar ríkið öllum fréttaflutningi. Áratugum saman hafa ríkisfjölmiðlar þar í landi sagt Bandaríkin stærsta óvin Norður-Kóreu, og er það því eflaust furðulegt fyrir borgara landsins að sjá ljósmyndir af leiðtoga sínum ásamt forseta þessa mikla óvinar landsins.
Viðræður vegna kjarnorkuafvopnunar Norður-Kóreu hafa gengið brösuglega og endaði síðasti fundur leiðtoganna í febrúar án niðurstöðu. Eftir óvæntan fund þeirra í gær hafa þeir hins vegar lýst því yfir að viðræður þess efnis haldi áfram.