„Við pöntuðum allt fríið í mars, þar á meðal þetta hús sem við ætluðum að búa í, við erum hérna ellefu saman, þrjár fjölskyldur,“ segir Linda Kristiansen frá Skjetten í Akershus, nágrannafylki Óslóar, í samtali við mbl.is rétt í þessu, nýkomin af ströndinni í Puerto de Pollença og rétt að byrja að jafna sig á áfallinu eftir að óprúttnir aðilar höfðu 63.000 norskar krónur af ellefumenningunum, 930.000 íslenskar krónur.
Kristiansen og föruneyti hennar skipulögðu fríið með margra mánaða fyrirvara svo sem Norðmanna er siður og fundu sér hús sem þeim leist vel á á vefsíðunni SpainVillas-Rental sem Kristiansen segir vera svindlsíðu frá grunni, ekki hafi verið á ferð óprúttnir aðilar sem nýttu sér heiðarlega leigusíðu heldur sé síðan í heild sinni á forræði dusilmenna.
„Við skrifuðum undir samning, borguðum og allt leit rosalega vel út, við fengum fínar myndir af húsinu og vorum mjög spennt að fá þessa fínu gistingu,“ segir Kristiansen. „Svo viku fyrir brottför fóru að renna á okkur tvær grímur. Þá áttum við að fá upplýsingar um hvernig við nálguðumst lykla að húsinu en þá svaraði okkur enginn þrátt fyrir fleiri tölvupósta. Við þorðum þá ekki annað en að bóka annað hús til öryggis núna tveimur dögum áður en við komum hingað niður eftir,“ segir Kristiansen frá.
Fjölskyldurnar þrjár mættu engu að síður með von í brjósti þangað sem þær höfðu leigt fyrra húsið og varð þá býsna pínleg uppákoma: „Þá hittum við fyrir fólk sem átti það hús og bjó í því og kom algjörlega af fjöllum, hafði aldrei heyrt af því að búið væri að leigja ellefu Norðmönnum húsið þeirra,“ segir Kristiansen og getur ekki annað en hlegið þvert ofan í stórtjónið þegar hún rifjar upp samtalið við hina raunverulegu húseigendur.
En myndirnar af húsinu að innanverðu, voru þær teknar annars staðar? „Nei nei, þetta voru raunverulegar myndir af þessu húsi, eigendurnir staðfestu það og þekktu aftur myndirnar sem fylgdu fasteignaauglýsingunni síðan þau keyptu húsið fyrir fimm árum,“ segir Kristiansen.
„Öll síðan er svindl,“ segir hún enn fremur, „við töluðum við netþjónustuaðilann sem vistar síðuna og kröfðumst þess að henni yrði lokað, en það gerist sko ekki einn, tveir og þrír hérna á Spáni svo við gáfumst fljótt upp við það,“ útskýrir Kristiansen svekkt.
Töpuðu þau þá 63.000 norskum krónum, jafnvirði 930.000 íslenskra, á samskiptum sínum við SpainVillas-Rental? „Já, þessir peningar eru farnir, nú þurfum við aðstoð frá bankanum og tryggingafélögum okkar til að komast gegnum fríið,“ segir Kristiansen og bætir því við að tryggingarnar bæti þó ekki eina krónu af hinu tapaða fé.
„Við millifærðum þetta inn á bankareikning, það á maður aldrei að gera og ég ráðlegg öllum sem lesa viðtalið að borga svona lagað alltaf með kreditkorti, slíkar greiðslur er mun auðveldara að bakfæra reynist maðkur í mysunni,“ segir Kristiansen og ráðleggur auk þess væntanlegum ferðalöngum og íbúðaleigjendum að skoða íbúðaleigusíður ofan í kjölinn, athuga hvað fyrirtækið á bak við þær heiti, fletta þeim upp á Google og sjá hvort einhver hafi einhvern tímann skrifað einhverjar reynslusögur og einnig athuga hvort vefsíður virðist trúverðugar, sem SpainVillas-Rental virtist því miður að hennar sögn.
„Við ætluðum að vera í Alcudia, þetta hús sem við ætluðum að leigja er þar, en núna erum við í Puerto de Pollença [á Norður-Mallorca],“ segir Kristiansen og bætir því við að hópurinn sé ákveðinn í að láta áfallið ekki eyðileggja fríið. „Við eigum reyndar eftir að finna okkur íverustað síðustu tvær næturnar, aðfaranætur laugardags og sunnudags núna um helgina en það bjargast. Við erum í sambandi við norska leigusíðu núna, mallorcautleie.no, og aðstandendur hennar hafa verið alveg yndislegir og hjálpað okkur með allt sem hægt er,“ segir Linda Kristiansen að lokum, fjölmiðlafulltrúi þriggja norskra fjölskyldna sem lentu í óvönduðu fólki en eru staðráðin í að láta það ekki eyðileggja fríið.
Það var fréttavefurinn Majorca Daily Bulletin sem greindi fyrst frá hremmingum Norðmannanna.