Theresa May, fráfarandi forsætisráðherra Bretlands, hefur gagnrýnt Donald Trump Bandaríkjaforseta en forsetinn sagði fjórum þingkonum Demókrataflokksins „að fara heim“ í færslum sem hann birti á Twitter í gær.
Trump hefur verið sakaður um kynþáttaníð en talið er að þingkonurnar fjórar sem Trump á við í færslum sínum séu þær Alexandria Ocasio-Cortez, Rashida Tlaib, Ayanna Pressley og Ilhan Omar, en þrjár þær fyrstnefndu fæddust allar í Bandaríkjunum og sú síðastnefnda fluttist þangað sem barn.
May sagði ummæli Trump „algjörlega óviðunandi“ en forsetinn sagði þingkonurnar upprunalega koma frá löndum þar sem stjórnvöld væru gjörspillt.
Leiðtogar Demókrataflokksins hafa fordæmt rasísk ummæli forsetans en repúblikanar hafa þagað þunnu hljóði.
Trump lét gagnrýni sem vind um eyru þjóta og hvatti þingkonurnar fjórar í morgun til þess að biðjast afsökunar.
Alexandria Ocasio-Cortez, Rashida Tlaib, Ayanna Pressley og Ilhan Omar sökuðu allar forsetann um rasisma en fjöldi áhrifafólks innan Demókrataflokksins hefur stutt þær.