Klerkurinn Mullah Krekar var í dag settur í gæsluvarðhald í Noregi eftir að hann var dæmdur á Ítalíu fyrir „hryðjuverkasamsæri“ að því er fram kemur í máli lögfræðings hans við AFP fréttastofuna.
Krekar, sem er Kúrdi frá Írak, hefur verið flóttamaður í Noregi frá 1991 en hefur ekki fengið norskan ríkisborgararétt. Ítölsk yfirvöld saka hann um að leiða samtökin Rawti Shax, sem talin eru tengjast vígasamtökin Ríki íslams.
Krekar var handtekinn í Osló á mánudag eftir að alþjóðleg handtökuskipan var gefin út á hendur honum. Dómari í norsku höfuðborginni úrskurðaði hann í dag í fjögurra vikna gæsluvarðhald.
Ítalska dómsmálaráðuneytið sagði norskum fjölmiðlum að þarlend yfirvöld myndu fara fram á að Krekar yrði framseldur til Ítalíu.
Það gæti hins vegar tekið einhvern tíma en lögfræðingur Krekar segir að dómnum á Ítalíu verði áfrýjað. Þar var Krekar, að honum fjarstöddum, dæmdur til 12 ára fangelsisvistar fyrir að leiða Rawti Shax.
Norskur lögmaður Krekar, Brynjar Meling, sagði í gær að skjólstæðingur hans neitaði því og að hann hefði engin tengsl við Ríki íslams.
Krekar hefur átt framsal yfir höfði sér allt frá árinu 2003 eftir að norsk yfirvöld fyrirskipuðu honum að fara úr landi þar sem hann væri ógn við þjóðaröryggi. Þrátt fyrir að hann verði framseldur til Ítalíu er lagt bann við því í norskum lögum að hann verði framseldur til Írak því þar er hætta á að hann verði dæmdur til dauða.