26 manns hið minnsta fórust og tugir slösuðust í eldsvoða í teiknimyndastúdíói í Kyoto í Japan í morgun. Lögregla handtók mann á fimmtugsaldri á vettvangi, en hann hafði úðað bensíni um kvikmyndaverið áður en hann kveikti í.
Japanska NHK-sjónvarpsstöðin segir nokkurra þeirra, sem taldir eru hafa verið inni í húsinu er eldurinn kviknaði, enn vera saknað.
Shinzo Abe, forsætisráðherra Japan, sagði atburðinn of skelfilegan til að orð fengju honum lýst, er hann vottaði fórnarlömbunum og aðstandendum þeirra samúð sína.
Samkvæmt japönskum fjölmiðlum braut maður sér leið inn í myndver Kyoto Animation Co. og úðaði þar bensínvökva. Hann var svo handtekinn og fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar vegna sára sem hann hlaut í eldinum. Björgunaraðgerðum er ekki lokið.
„Karlmaður úðaði vökva og kveikti svo í honum,“ hafði AFP-fréttaveitan eftir talsmanni lögregluyfirvalda í Kyoto fyrr í morgun. Ekki hefur verið upplýst um hver ástæða árásarinnar kunni að vera, né heldur hvort að maðurinn hafi tengst fyrirtækinu með einhverjum hætti.
Japanska NHK-sjónvarpsstöðin segir vitni hafa heyrt manninn segja „drepist“ áður en hann kveikti í húsinu. Þá er lögregla sögð hafa fundi hnífa á vettvangi.
Eldurinn kviknaði í kvikmyndaverinu, sem er í þriggja hæða byggingu, um hálfellefuleytið í morgun að staðartíma.