„Allt í einu er rifið í stöngina“

Lúða af séra Guðmundarkyninu komin upp á yfirborðið, 124 kílógramma …
Lúða af séra Guðmundarkyninu komin upp á yfirborðið, 124 kílógramma þung og 209 sentimetra löng, andlag allra veiðidrauma Bilal Saab og vinahópsins frá blautu barnsbeini. Ljósmynd/Rickard Hansson

„Við vor­um við það að snúa til lands þegar allt í einu er rifið í stöng­ina hjá mér,“ seg­ir hinn tví­tugi Bilal Saab frá Hasvik á Sørøya í Finn­mörku í Norður-Nor­egi í sam­tali við norska rík­is­út­varpið NRK í fyrra­dag þar sem hans stærsta veiðisaga á ferl­in­um hingað til leit dags­ins ljós, en þeir fé­lag­arn­ir, sem voru nokkr­ir sam­an úti á þrem­ur bát­um, drógu þá 124 kíló­gramma 209 senti­metra lúðu upp á yf­ir­borðið með sam­stilltu átaki og segja mynd­ir Rickard Hans­son, sem Saab leyfði mbl.is góðfús­lega að birta, meira en mörg orð.

Veiðimaður­inn ungi starfar sem leiðsögumaður hjá ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tæk­inu Big Fish Advent­ure í Hasvik sem býður æv­in­týraþyrst­um ferðamönn­um upp á djúp­sjáv­ar- og ann­ars kon­ar fisk­veiði á haf­inu um­hverf­is Sørøya. Þeir fé­lag­arn­ir voru þó ekki með ferðamanna­hóp á miðviku­dag­inn, voru bara sjálf­ir á lúðu, en þeir sleppa allri lúðu sem þeir veiða. „Þú set­ur þetta ekk­ert í fryst­inn hjá þér,“ seg­ir Saab og hlær.

Jötunn dreginn úr greipum ægis með samstilltu átaki úti fyrir …
Jöt­unn dreg­inn úr greip­um ægis með sam­stilltu átaki úti fyr­ir Sørøya í Finn­mörku. Bilal Saab seg­ist hafa rekið upp gleðiösk­ur þegar hann sá feng­inn sem þó var sleppt aft­ur til heim­kynna sinna í djúp­inu. Ljós­mynd/​Rickard Hans­son

„Ég gat ekk­ert dregið inn, var far­inn að halda að ég hefði fest lín­una. Svo áttuðum við okk­ur á að við vor­um komn­ir með risa­fisk á,“ seg­ir Saab. Með sam­stilltu átaki drógu þeir fé­lag­ar færið inn og að lok­um vitraðist þeim sýn sem Saab mun seint gleyma.

„Ég öskraði bara. Á bak við þenn­an dag eru mörg þúsund veiðitím­ar. Þarna kom hann upp, fisk­ur­inn sem við höf­um talað og látið okk­ur dreyma um síðan við vor­um börn. Þetta var magnað,“ seg­ir Saab og ekki örgrannt um í veiðisög­um framtíðar­inn­ar að rýrt muni verða fyr­ir hon­um smá­mennið.

Fékk 314 kg lúðu haustið 2007

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem gríðar­stór lúða er dreg­in úti fyr­ir strönd­um Finn­merk­ur, nyrsta fylk­is Nor­egs, 6. októ­ber 2007 veiddi Tom Rich­ard Kristian­sen 314,5 kíló­gramma lúðu, þriggja metra langa og eins metra breiða. Eitt­hvað sem Íslend­ing­ar segðu kannski að væri „rosa­lega 2007“ sem var vin­sælt orðatil­tæki hér um árið.

Bilal Saab og lúðuflikkið stilla sér upp fyrir myndatöku áður …
Bilal Saab og lúðuflikkið stilla sér upp fyr­ir mynda­töku áður en ris­inn var kvadd­ur og hon­um sleppt. Ljós­mynd/​Rickard Hans­son

Saab smeygði sér að lok­um í þurr­bún­ing og kastaði sér í sjó­inn hjá feng þeirra fé­laga fyr­ir mynda­töku. „Við brugðum bandi á hana svo hún þyrfti ekki að vera með öng­ul­inn í kjaft­in­um of lengi,“ seg­ir hann. „Svo sleppt­um við henni, við tök­um ekki upp fiska yfir 130 senti­metra að lengd. Maður þarf líka að hugsa um stofn­inn, stór­lúða get­ur eign­ast millj­ón­ir af­kvæma á ævi­skeiði sínu og maður vill ekki höggva slíkt skarð í stofn­inn.“

Auk þessa setti norska sjáv­ar­út­vegs­ráðuneytið regl­ur um það árið 2017 að veidd­um stór­lúðum skyldi veita frelsi vegna þess hve óæski­legt þykir að þær fari í mann­eldi, dýr­in inni­halda oft­ast óæski­legt magn þung­málma og eit­ur­efna.

Hvað sem því líður rætt­ist langþráður æsku­draum­ur hóps ungra fiski­leiðsögu­manna í Finn­mörku svo um mun­ar á miðviku­dag­inn.

VG greindi einnig frá veiðiferðinni.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert