Rússar sagðir harma atvikið

Herflugvél af gerðinni F-15, svipuð þeirri sem suðurkór­eski her­inn sendi …
Herflugvél af gerðinni F-15, svipuð þeirri sem suðurkór­eski her­inn sendi til móts við rússnesku vél­ina. Mynd úr safni. AFP

Rússnesk stjórnvöld segja ferð rússneskrar herflugvélar inn í suður-kóreska lofthelgi hafa verið óviljaverk. Frá þessu greinir forsætisráðuneyti Suður-Kóreu í dag, en greint var frá því í gær að suður-kóreski herinn hefði skotið á fjórða hundrað viðvör­un­ar­skot­um að rúss­nesku herflug­vélinni.

Rússar höfnuðu því í fyrstu að atvikið hefði átt sér stað, en BBC hefur eftir suður-kóreska varnarmálaráðuneytinu að yfirmenn rússneska hersins hafi nú sagst harma atvikið sem hefði orðið vegna tæknigalla og að samstundis yrði hafin á því rannsókn.

Rússnesk yfirvöld „sögðu að ef flugvélin hefði flogið eftir fyrirframákveðinni leið sinni hefði atvikið ekki átt sér stað,“ sagði talsmaður Japansstjórnar á fundi með fjölmiðlum.

BBC segir rússnesk stjórnvöld ekki hafa staðfest þessar fréttir.

Suður-kór­eski herinn sagði í gær þrjár rúss­nesk­ar og tvær kín­versk­ar herflug­vél­ar hafa farið inn á svo­nefnt KADIZ-svæði, en það er loft­varn­ar­svæði Kór­eu­skaga, og ber þeim sem eru þar á ferð að til­kynna komu sína fyr­ir fram. 

Kínversk yfirvöld hafna því hins vegar alfarið að vélar kínverska flughersins hafi farið inn fyrir lofthelgi nokkurs ríkis.

Að sögn rússneska varnarmálaráðuneytisins tók herflugvélin sem um ræðir þátt í sameiginlegu loftferðaeftirliti rússneskra og kínverskra herflugvéla yfir Japanshafi og austurhluta Kínahafs, en um var að ræða fyrsta sameiginlega loftferðaeftirlit ríkjanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert