Tæplega 13 milljónir Bandaríkjamanna horfðu á vitnisburð Robert Muellers, sérstaks saksóknara FBI, fyrir dómsmála- og njósnanefndum Bandaríkjaþings í gær.
Fátt nýtt kom fram í sjö klukkustunda löngum vitnisburði Muellers fyrir þingnefndunum, sem sendur var út í beinni útsendingu.
Vitnisburðar hans um skýrsluna af afskiptum rússneskra ráðamanna af bandarísku forsetakosningum 2016 hafði verið beðið í nokkurn tíma.
Reuters segir Mueller bersýnilega hafa fundist óþægilegt að bera vitni fyrir þinginu, en áður hefur verið greint frá því að hann væri á móti því að að koma fyrir nefndir þingsins. Skýrslan væri hans vitnisburður.
Í inngangsframburði sínum sagðist Mueller ekki ætla að svara öllum spurningum þingmanna og hann sagðist ekki ætla að segja hvort að Trump hafi framið glæp. Þá fullyrti hann að rannsókn embættis hans hafi verið gerð á „sanngjarnan og sjálfstæðan hátt“.
Ólíkt því sem Trump hefur ítrekað fullyrt, sagði Mueller skýrslu sína um afskipti Rússa, ekki staðfesta að forsetinn hafi ekki framið glæp.
„Niðurstöðurnar gefa í skyn að forsetinn sé ekki hreinsaður af sök fyrir meintar gjörðir hans,“ sagði Mueller og bætti við að það væri „rétt“ að Trump gæti verið ákærður fyrir að hindra framgang réttvísinnar þegar hann lætur af embætti forseta.
Fjöldinn sem fylgdist með vitnisburði Muellers í gær var þó töluvert minni en fylgdist með yfirheyrslum þingsins yfir Brett Kavanaugh vegna tilnefningar hans í embætti hæstaréttardómara.
Segir Reuters 20,4 milljónir hafa fylgst með útsendingunni þá, en 19,2 milljónir með Mueller nú. 19,5 milljónir fylgdust þá með vitnaleiðslum þingsins yfir James Comey, fyrrverandi forstjóra FBI, árið 2017 vegna þeirrar ákvörðunar Donald Trump Bandaríkjaforseta að reka hann.