Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sagði í dag að „gríðarleg tækifæri“ felist í Brexit og að forveri hans, Theresa May, hefði tekið á málinu eins og það væri „væntanlegt vonskuveður.“
Í ræðu sem forsætisráðherrann hélt í Manchester í dag hét hann því að auka fjárfestingar á svæðum sem kusu með Brexit og lofaði að setja fullan kraft í viðræður um fríverslunarsamninga við ríki heimsins sem myndu nýtast við útgöngu úr Evrópusambandinu.
„Þegar fólk kaus með því að yfirgefa Evrópusambandið kusu þau ekki bara gegn Brussel, þau kusu líka gegn London,“ sagði Johnson.
„Að taka aftur völdin nær ekki bara til þess að þingið endurheimti fullveldi sitt frá Evrópusambandinu,“ sagði forsætisráðherrann og lofaði því að auka sjálfsákvörðunarrétt á lægra stjórnsýslustigi. Þá hét hann því einnig að auka fjárfestingu í innviði.
Johnson sagðist reiðubúinn til þess að ræða við fulltrúa Evrópusambandsins með þeim fyrirvara að varnaglinn (e. backstop), sem varðar Norður-Írland, verði felldur úr samningnum sem May gerði við sambandið og var þrisvar felldur í þinginu.
„Við getum ekkert gert eins lengi og þessi ólýðræðislegi varnagli, þessi varnagli sem til þess er fallinn að skipta landinu upp, er enn til staðar. Við verðum að koma honum burt og fyrst þá getum við náð árangri.“
Álitsgjafar hafa velt því fyrir sér hvort Johnson muni kalla til kosninga í þeim tilgangi að endurheimta meirihluta Íhaldsflokksins á breska þinginu. Forsætisráðherrann sagðist „algjörlega“ útiloka kosningar áður en Bretland segir skilið við Evrópusambandinu.