Einræðisstjórnin í Norður-Kóreu segir að nýjustu eldflaugatilraunir sínar séu „alvarleg viðvörun“ til stjórnvalda í Suður-Kóreu sem hún lýsir sem „stríðsæsingamönnum“.
Norður-Kóreumenn skutu tveimur skammdrægum eldflaugum sem lentu í Japanshafi í fyrradag. Rannsóknir á gervihnattamyndum hafa einnig bent til þess að Norður-Kóreumenn hafi haldið áfram smíði langdrægra eldflauga og framleiðslu kjarnkleyfra efna sem notuð eru í kjarnavopn þrátt fyrir fundi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta með norðurkóreska einræðisherranum Kim Jong-un, að sögn The Wall Street Journal.
Blaðið hefur eftir sérfræðingum leyniþjónustu bandaríska varnarmálaráðuneytisins að Norður-Kóreumenn kunni að hafa framleitt allt að tólf kjarnavopn frá fyrsta fundi Trumps með Kim í Singapúr í fyrra. Talið er að Norður-Kóreumenn eigi núna alls 20-60 kjarnorkusprengjur sem hægt væri að beita með tiltölulega skömmum fyrirvara.
Trump hefur gert lítið úr mati bandarískra öryggisstofnana á hættunni sem stafar af kjarnavopnum einræðisstjórnarinnar og sagði nýlega í sjónvarpsviðtali að Kim hefði „lofað“ að framleiða ekki kjarnavopn. Áður hafði hann sagt að Kim hefði verið „mjög hreinskilinn“, „mjög heiðvirður“ og „mjög einlægur“ í viðræðum þeirra um kjarnorkuafvopnun á Kóreuskaga. Trump talaði um að samband sitt við einræðisherrann væri „dásamlegt“ og sagði á fundi með stuðningsmönnum sínum í október að þeir Kim hefðu orðið „ástfangnir“.
Fjölmiðlar einræðisstjórnarinnar í Norður-Kóreu sögðu að Kim hefði haft yfirumsjón með eldflaugatilrauninni í fyrradag til að vara „stríðsæsingamennina“ í Suður-Kóreu við. Þetta var fyrsta eldflaugaskot Norður-Kóreumanna frá fundi Trumps með einræðisherranum á hlutlausa beltinu við landamæri Kóreuríkjanna í júní.
Kim sagði að einræðisstjórnin hefði neyðst til að þróa „ofuröflug“ vopn til að verjast ógnum við þjóðaröryggi Norður-Kóreu. Áður höfðu fjölmiðlar landsins gagnrýnt ákvörðun stjórnvalda í Suður-Kóreu og Bandaríkjunum um að efna til sameiginlegra heræfinga í næsta mánuði. Einræðisstjórnin hefur alltaf haldið því fram að markmiðið með heræfingum landanna tveggja sé að undirbúa innrás í Norður-Kóreu. Bandaríkjastjórn frestaði eða dró úr viðamestu heræfingunum með Suður-Kóreu eftir fyrsta fund Trumps með Kim í júní á síðasta ári en umfangsminni æfingum hefur verið haldið áfram, að sögn bandarískra embættismanna. Um 29.000 bandarískir hermenn eru í Suður-Kóreu í samræmi við varnarsamning ríkjanna eftir að Kóreustríðinu lauk árið 1953.
Kim kvaðst vera ánægður með hvernig tilraunin í fyrradag heppnaðist og sagði að ekki yrði auðvelt að verjast eldflaugunum. Talið er að Norður-Kóreumenn séu að þróa skammdræga eldflaug sem geti flogið lágt og breytt stefnu sinni til að minnka líkurnar á því að hægt yrði að skjóta hana niður, að sögn varnarmálaráðuneytis Suður-Kóreu. Fyrr í vikunni skoðaði Kim einnig nýja gerð kafbáta sem sumir sérfræðingar telja að geti borið eldflaugar.
Kim gagnrýndi ekki Bandaríkjastjórn í yfirlýsingu sinni um heræfingarnar og stjórn hans hefur forðast gagnrýni á Bandaríkin að undanförnu í von um að framhald verði á viðræðunum við Trump.
Stjórnvöld í Suður-Kóreu hvöttu einræðisstjórnina til að hætta eldflaugatilraununum og sagði að landinu stafaði hætta af þeim. Trump og utanríkisráðherra hans, Mike Pompeo, gerðu hins vegar lítið úr þýðingu tilraunanna. Pompeo sagði að markmiðið með þeim væri aðeins að styrkja samningsstöðu NorðurKóreumanna í komandi viðræðum.
Bandaríkjastjórn vill halda viðræðunum áfram þar sem eldflaugatilraunirnar í fyrradag eru ekki taldar bein ógn við meginland Bandaríkjanna. „Norður-Kóreumenn þyrftu að sprengja kjarnaodd á Times Square til að koma í veg fyrir að Trump reyni að ná þessum samningi,“ hefur The Wall Street Journal eftir Daniel Sneider, sérfræðingi í öryggismálum Asíu við Stanford-háskóla.
Fréttaskýrandi BBC segir að markmiðið með eldflaugatilraununum kunni að vera að reka fleyg á milli stjórnvalda í Washington og Seoul. Stjórn Suður-Kóreu hafi þegar hvatt til þess að refsiaðgerðir gegn Norður-Kóreu verði mildaðar en stjórn Trumps hefur hafnað því og sagt að fyrst verði Norður-Kóreumenn að fallast á að eyða kjarnavopnum sínum.
Sérfræðingar í málefnum Norður-Kóreu telja að vonirnar sem Trump hefur bundið við fundina með Kim séu óraunhæfar og beri keim af óskhyggju. „Norður-Kóreustjórn getur ekki látið vopn sín af hendi og beðið síðan eftir því að Bandaríkjastjórn aflétti refsiaðgerðum,“ hefur The Wall Street Journal eftir Kim Joon-hyung, prófessor í alþjóðasamskiptum í Suður-Kóreu. „Það væri aðeins mögulegt ef Norður-Kóreumenn bæru fullt traust til Bandaríkjamanna. Það gera þeir ekki, þess vegna getur Norður-Kóreustjórn ekki beðið lengi.“