Fljótandi plastleifar þekja nú afskekkta Kyrrahafseyju sem var eitt sinn álitin mikil náttúruperla. Segja vísindamenn að fátt sé til ráða til að bjarga eyjunni á meðan mannfólkið heldur áfram að henda sama magni af rusli.
Henderson-eyja er óbyggð hringlaga kóraleyja með sjávarlóni í miðju og er staðsett svo gott sem á miðri leið milli Nýja-Sjálands og Perú, um 5.500 kílómetrar af hafi umlykja eyjuna í hvora átt.
Þrátt fyrir gríðarlega einangrun eyjarinnar gera hafstraumar það að verkum að þar er ein mesta samsöfnun plastúrgangs á jörðinni.
„Við fundum rusl frá um það bil öllum stöðum,“ segir Jennifer Lavers, ástralskur vísindamaður sem fór fyrir rannsóknarferð til eyjarinnar í síðasta mánuði.
„Við fundum flöskur og ílát, ýmis veiðifæri sem komu frá, nefndu það bara - Þýskalandi, Kanada, Bandaríkjunum, Síle, Argentínu, Ekvador. Þetta voru raunveruleg skilaboð um að öll lönd beri ábyrgð á að vernda umhverfið, líka á svona afskekktum svæðum.“
Vistkerfi eyjarinnar er gríðarlega fjölbreytt og dýrmætt. Henderson var sökum einstaks umhverfis sett á Heimsminjaskrá UNESCO árið 1988, þar sem eyjunni var lýst sem ósnortinni paradís.
En þremur áratugum síðar er Henderson-eyja orðin miðdepill þess sem kallað er „plasteyjan“ í Suður-Kyrrahafi.
Lavers fór fyrir fyrstu rannsóknarferð sinni til eyjarinnar árið 2015. Á austurströnd hennar fundust þá um 700 plastleifar á hverjum fermetra, sem er ein mesta samsöfnun plasts í heimi. Lavers skipulagði hreinsunaraðgerðir fyrir ferð sína til eyjarinnar í síðasta mánuði og söfnuðust sex tonn af plastúrgangi á tveimur vikum.
Teymi Lavers tókst þó ekki að koma plastúrganginum um borð í skip sitt og þurfti að skilja það eftir á eyjunni, hvaðan það verður síðar fjarlægt.
Lavers segir það afar niðurdrepandi að leggja svo mikla vinnu í að hreinsa eyjuna, til þess eins að sjá meira plast fljóta upp á strendurnar sem hún hafði rétt lokið við að hreinsa. Segir hún ferðina varpa ljósi á þá staðreynd að hreinsunaraðgerðir séu engin langtímalausn á vandamálinu.
„Það er nú þegar svo mikið af rusli í hafinu, við þurfum að gera allt sem við getum til að koma í veg fyrir að meira af rusli fari í það.“