Það var árið 2014 sem franska sjónvarpsstöðin TFI birti í heimildarmynd um loftslagsmál ímyndaðan veðurfréttatíma þar líkt var eftir veðurspám ársins 2050, ef ekki yrði gripið til aðgerða gegn loftslagsvánni. Einhverjir kunna að hafa talið stöðina ganga fulllangt í dómsdagsspá sinni.
Efasemdarmenn þurftu þó ekki að bíða þess lengi að spáin rættist, og gott betur. Einmuna hitabylgja hefur gengið yfir Evrópu síðustu vikur, og eymir af henni hérlendis. Hitamet hafa fallið í hrönnum, og náði hiti 41 gráðu í París í síðustu viku en það er met.
Samsett mynd gengur nú um netheima sem lús í leikskóla, en hún sýnir samanburð á ímyndaðri dómsdagsspánni og raunverulegri veðurspá næstu daga eins og hún birtist á TFI í vikunni.
Frönsk stjórnvöld róa að því öllum árum að fá ríki heims til að standa við skuldbindingar sínar úr Parísarsamkomulaginu svokallaða sem kveður á um að hiti á jörðu skuli ekki hækka meira en um 1,5 gráður miðað við það sem var árið 1990. Nær öll ríki heims undirrituðu sáttmálann, en gjarnan virðist sem hugur fylgi ekki máli.
Greint var frá því á dögunum að Evrópski fjárfestingarbankinn hygðist hætta fjárfestingum í orkufrekum verkefnum sem háð eru olíu, koli eða gasi. Þykir það gott skref, en gengur skammt fylgi fleiri ekki fordæminu.