Ekkert klósett, engin eldhúsaðstaða og lítið sem ekkert næði. Svohljóðandi verða aðstæður sænska umhverfisaðgerðasinnans Gretu Thunberg næstu tvær vikurnar um borð í 60 feta skútunni Malizia II.
Greta mun ferðast með skútunni yfir Atlantshafið til Bandaríkjanna þar sem hún mun ávarpa loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fram fer í New York í september. Síðar í mánuðinum mun hún ávarpa COP25-ráðstefnuna í Santiago. Greta flýgur ekki vegna losunaráhrifa flugsamgangna og var því í erfiðleikum með að finna leið til þess að ferðast þangað.
Áhöfn Malizia II hafði samband við Gretu og bauð henni far yfir Atlantshafið, en faðir hennar mun einnig ferðast með henni. Skútan er knúin sólarrafhlöðum og sérstakri túrbínu sem framleiðir rafmagn með vistvænum hætti. Greta kynnti sér aðstæður í skútunni í dag:
„Ég gæti orðið sjóveik og þetta verður ekki þægilegt, en ég get höndlað það,“ segir Greta í samtali við blaðamann BBC, sem kynnti sér einnig aðstæður í dag.
„Ef þetta verður mjög erfitt get ég huggað mig við það að þetta verða bara tvær vikur,“ bætir Greta við, sem mun sofa í lítilli koju og gera þarfir sínar í litla bláa tunnu.
„Engin sturta, við förum bara í föt og erum í þeim næstu tvær vikurnar,“ segir Boris Herrmann, skipstjóri Malizia II.
Greta kippir sér ekki upp við það, en með því að ferðast með skútunni vill hún senda þau skilaboð að loftslagsváin sé svo sannarlega til staðar og að við henni þurfi að bregðast.
Stefnt er að því að leggja í hann á morgun frá Plymouth í Bretlandi.