Eina rafmagnsflugvél Noregs nauðlenti

Dag-Falk Petersen, forstjóri Avinor, ræðir um rafmagnsvélina og framtíð rafknúinna …
Dag-Falk Petersen, forstjóri Avinor, ræðir um rafmagnsvélina og framtíð rafknúinna flugfara í Noregi í kynningarmyndbandi Avinor um vélina. Myndbandið má horfa á neðst í fréttinni. Skjáskot/Kynningarmyndband Avinor

„Við fengum boð um bilun í mótornum og að hann hefði misst afl. Ég kallaði „mayday“ til flugturnsins og fór svo að leita að lendingarstað.“ Þetta segir Dag Falk-Petersen, forstjóri flugvallarrekstrarþjónustufyrirtækisins Avinor, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK nú fyrir skömmu eftir að hafa sloppið ómeiddur úr nauðlendingu einu rafmagnsflugvélar Noregs, en hún er eign Avinor.

„Við hlið Falk-Petersen í flugfarinu, sem skráð er sem tilraunaflugvél, sat Aase Marthe J. Horrigmo, ráðuneytisstjóri í sveitarstjórnar- og nútímavæðingarráðuneytinu (n. kommunal- og moderniseringsdepartementet) og varð henni heldur ekki meint af nauðlendingunni, en rafmagnsvélin steyptist ofan í tjörn í Nesheim í Arendal í Suður-Noregi.

Flugið var liður í bæjarhátíðinni Arendalsuka og bauð Avinor-stjórinn ýmsum stjórnmálamönnum í flugferð í dag til að kynna þeim mögulega framtíð rafknúinna flugfara í Noregi, sem málalok þessarar flugferðar voru vonandi ekki fyrirboði um. Skömmu á undan Horrigmo flaug Ola Elvestuen, loftslags- og umhverfisráðherra, um loftin blá með forstjóranum.

Varð ekki rafmagnslaus

„Er það ekki viss ósigur að flugvélin hrapaði?“ spyr fréttamaður NRK Falk-Petersen og vísar til kynningarhlutverksins. „Jú, það er það,“ svarar forstjórinn og bætir því við að flugvélin hafi þó ekki orðið rafmagnslaus.

Krani kom á vettvang við tjörnina í Nesheim nú fyrir skömmu og hífði vélina upp úr henni en ekki er vitað um ástand hennar enn sem komið er. Neðan við tenglana í fréttir annarra norskra fjölmiðla en þegar er vitnað í má horfa á kynningarmyndband Avinor um rafmagnsvélina.

VG

Aftenposten

Dagbladet

 

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert