Mette Fredriksen, forsætisráðherra Danmerkur, er opin fyrir þeim möguleika að herða á eftirliti á landalandamærum Danmerkur og Svíþjóðar. Þetta kom fram á blaðamannafundi stjórnvalda vegna árásarinnar á skrifstofu danska skattsins í Kaupmannahöfn í síðustu viku. Sænskur karlmaður hefur verið handtekinn vegna málsins og annar Svíi er eftirlýstur.
„Þetta má ekki verða daglegt brauð í Danmörku. Við megum ekki venjast þessu,“ sagði Frederiksen í samtali við danska ríkisútvarpið, DR. Nefndi hún sérstaklega fjölgun almennra öryggismyndavéla og sérstakra myndavéla sem greina skráningarnúmer bifreiða.
Frederiksen sagði einnig að herða mætti skilríkjaeftirlit á landamærunum, en sagði þó að það mætti ekki beinast að fólki sem flakkar daglega milli Malmö í Svíþjóð og Kaupmannahafnar vegna vinnu. Aðeins 40 kílómetrar eru milli borganna, beggja vegna Eyrarsunds og tekur lestarferð þar á milli 40 mínútur. „Markmiðið er að stöðva glæpamenn, og þeir ferðast ekki mikið með lestum,“ sagði Frederiksen.
Óreglulegt landamæraeftirlit hefur verið milli landamæra Svíþjóðar og Danmerkur frá árinu 2015. Eftirlitið er háð undanþágu frá regluverki Schengen-samstarfsins og aðeins endurnýjað til sex mánaða í senn. Danir hafa á síðustu árum, ásamt fleiri ríkjum, nýtt sér undanþáguna vegna meints flóttamannavanda, en hún er aðeins ætluð til brúks vegna tímabundinnar ógnar og segir í lögum Evrópusambandins að hana skuli aðeins nýta sem neyðarúrræði.
Hafa margir velt fyrir sér hvort sú neyð sé enn til staðar í ljósi mikillar fækkunar í komu flóttafólks til álfunnar á undanförnum misserum, frá því sem mest lét árið 2015.