Staðfestir áhuga sinn á Grænlandi

Donald og Melania Trump lenda á grasflöt Hvíta hússins í …
Donald og Melania Trump lenda á grasflöt Hvíta hússins í dag. AFP

Donald Trump staðfesti í dag í samtali við fjölmiðla að hann hefði áhuga á því að kaupa Grænland og að hann myndi án efa ræða það í fyrirhugaðri opinberri heimsókn sinni til Danmerkur í byrjun september. Ef hún verður þá farin, því Trump gaf í skyn að ferðin væri ekki alveg meitluð í stein.

Hann sagði þó að möguleg kaup á Grænlandi væru ekki efst á lista yfir forgangsmál bandarískra stjórnvalda. „Við höfum rætt þetta,“ sagði Trump við blaðamenn í dag og staðfesti þannig fréttaflutning Wall Street Journal frá því fyrir helgi.


Forsetinn sagði hugmyndina hafa komið upp í umræðum og honum þætti hún áhugaverð. Bandaríkin hafi áhuga, en Danir verði að ákveða hvað þeir vilji gera.

Trump talaði um að Grænland væri byrði á Dönum. „Þau tapa næstum því 700 milljónum bandaríkjadala árlega á því að bera það uppi,” sagði forsetinn og bætti við að það yrði „gott“ fyrir hagsmuni Bandaríkjanna að eignast Grænland.

Danir greiða á hverju ári fjárstyrk í vasa grænlensku landstjórnarinnar sem nemur um þriðjungi landsframleiðslu Grænlands. Í fyrra var þessi upphæð yfir 600 milljónir bandaríkjadala, svo Trump er ekki fjarri lagi.

Mette dauðleið á umræðunni

Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur hefur sagst dauðleið á þessari fáránlegu …
Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur hefur sagst dauðleið á þessari fáránlegu umræðu. AFP

Grænlendingar hafa sem kunnugt er vísað því að bug að þeir séu til sölu. Þá hefur einnig verið bent á Grænlendingar ráði sér sjálfir – það sé ekki í höndum Dana að selja þá í fang Bandaríkjanna.

Þá hafa danskir stjórnmálamenn flestir vísað umræðunni um Trump og Grænland algjörlega á bug. Mette Frederiksen forsætisráðherra hefur sagt að hún sé orðin dauðleið á þessari á fáránlegu umræðu, en hún er einmitt stödd í heimsókn á Grænlandi sem stendur, þeirri fyrstu síðan hún tók við embætti sínu.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert