Leiðtogar stúdentahreyfinga í Hong Kong hvetja námsmenn til að sniðganga fyrirlestra fyrstu tvær vikurnar á önninni sem er í þann mund að hefjast til að taka þátt í friðsamlegum mótmælum og beita stjórnvöld þrýstingi.
Aðgerðasinnar í Hong Kong hafa gengið um götur sjálfsstjórnarhéraðsins og mótmælt reglulega síðan í júní. Námsmenn tilheyra stórum hluta mótmælenda. Tugir þúsunda aðgerðasinna í Hong Kong gengu um götur borgarinnar fyrr í vikunni í þeim tilgangi að sýna stjórnvöldum að mótmælendur hafa enn gríðarlegan stuðning almennings á bak við sig þrátt fyrir ofbeldi í þeirra garð og hótanir frá Kína.
Mótmælin hófust upprunalega vegna umdeilds framsalsfrumvarps sem ríkisstjóri Hong Kong, Carrie Lam, hugðist leggja fram. Það hefði heimilað Hong Kong að framselja afbrotamenn til Kína. Íbúar Hong Kong töldu það vera skýrt merki um að Kína væri að auka völd sín yfir sjálfstjórnarhéraðinu og mótmæltu.
Leiðtogar stúdentahreyfinga í tveimur af stærstu háskólum borgarinnar hafa tilkynnt að námsmenn muni ekki sækja tíma í skólunum 2.-13. september, í upphafi nýrrar annar. Frekari aðgerða er heitið ef stjórnvöld bregðast ekki við.
„Tveir vikur ættu að vera nægur tími fyrir stjórnvöld til að bregðast við,“ segir Davin Wong, formaður stúdentaráðs háskólans í Hong Kong.
Mótmælin hafa að mestu leytið farið friðsamlega fram þó að kvartað hafi verið yfir óþarflega mikilli hörku lögreglumanna í garð mótmælenda. Síðustu vikur hefur harkan aukist á báða bóga og mörgum þykir nóg um.
Carrie Lam hefur kallað mótmælendur óeirðaseggi. Nú er þess krafist að aðgerðir lögreglunnar verði rannsakaðar, hinum handteknu mótmælendum verði sleppt úr haldi lögreglu, Carrie Lam biðjist afsökunar á orðum sínum og segi af sér auk þess sem krafist er þess að frumvarpið verði tekið alfarið af dagskrá þingsins en framlagningu þess ekki einungis frestað.