Kona sem sat saklaus í fangelsi í Nevada í Bandaríkjunum í 35 ár hefur fengið þrjár milljónir bandaríkjadala, sem nemur tæplega 374 milljónum íslenskra króna, í bætur vegna fangelsisvistarinnar. Lögmaður konunnar segir að hún muni fara fram á frekari bætur.
Árið 1980 var Cathy Woods, sem er 68 ára í dag, ranglega dæmd fyrir að myrða Michelle Mitchell, 19 ára gamlan hjúkrunarfræðinema, að því er AP-fréttastofan greinir frá. Engin önnur kona hefur setið saklaus í fangelsi lengur en Woods, samkvæmt bandarískum gagnagrunni yfir þá sem hafa verið ranglega dæmdir í fangelsi.
Mitchell hvarf eftir að bíll hennar hafði bilað nálægt háskólanum í Nevada hinn 24. febrúar árið 1976. Lík hennar fannst síðar í bílskúr. Hún hafði verið bundin á höndum og á líki hennar voru mörg stungusár.
Það var ekki fyrr en þremur árum síðar að Woods var handtekin, grunuð um morðið. Hún var þá sjúklingur á geðdeild á geðsjúkrahúsi í Louisiana og sagði hjúkrunarfólki að hún hefði myrt Mitchell. Söguna endurtók hún við lögregluna og kviðdómur komst að þeirri niðurstöðu árið 1980 að hún væri sú seka. Hæstiréttur Nevada var ekki á sama máli og sýknaði hana. Málið fór þá aftur til meðferðar í undirrétti og var Woods sakfelld árið 1985. Hún fékk lífstíðarfangelsisdóm.
Árið 2010 báðu lögmenn hennar um að málið yrði tekið aftur til rannsóknar og að DNA-sýni yrðu tekin. Í ljós kom að á sígarettustubbi sem fannst við hlið líksins var DNA úr karlmanni. Þetta sama erfðaefni fannst á vettvangi tveggja annarra óleystra morða í Kaliforníu árið 1976. Það var þó ekki fyrr en í júlí árið 2014 sem sannað var að erfðaefnið væri úr Rodney Halbower, fanga sem afplánar fangelsisdóm í Oregon.
Yfirvöld telja að Halbower hafi nauðgað og myrt sex konur, þar á meðal Mitchell. Hann hefur aðeins verið sakfelldur fyrir tvö morð.
Gögn byggð á DNA-sýnunum hafa nú sýnt fram á sakleysi Woods. Lögfræðingur Woods segir að hún muni áfram sækja frekari bætur vegna málsins. Hyggst hún bæði stefna borgaryfirvöldum í Reno og rannsóknarlögreglumönnum sem fóru með rannsókn málsins en hún sakar þá um að hafa þvingað sig til að játa.
„Þrátt fyrir að engin upphæð sé nógu há til að bæta fyrir það tjón sem fröken Woods hefur orðið fyrir, þá mun þetta koma að einhverjum notum til að sjá fyrir umönnun hennar,“ segir Elizabeth Wang, lögmaður Woods.
Frá því að Woods losnaði úr fangelsi fyrir fjórum árum hefur hún dvalið hjá ættingjum í nágrenni borgarinnar Anacortes í Washingtonríki.
Wang segir að Woods hafi glímt við geðræn vandamál áratugum saman og hefði aldrei átt að vera yfirheyrð af lögreglu í tengslum við morðið á Mitchell.
Frekari málaferli vegna málsins eru nú þegar hafin og hefur Woods farið í mál við Nevadaríki þar sem reynir á ný lög sem kveða á um að þeir sem eru ranglega dæmdir fái allt að 3,5 milljónir bandaríkjadala í borgaralegar miskabætur. Fyrirtaka í málinu fór fram fyrr í mánuðinum en dómur hefur ekki verið kveðinn upp.