Nágrannaerjur á nýtt stig

mbl.is/Jim Smart

Áströlsk kona hefur höfðað mál gegn nágrönnum sínum í úthverfi Perth fyrir að grilla og að börn þeirra séu of hávær. 

Konan, Cilla Carden, heldur því fram að um lögbrot sé að ræða þar sem framferði nágrannanna brjóti reglur sem gildi um búsetu á svæðinu. Carden hefur farið fram á það við dómstóla Vestur-Ástralíu að taka af allan vafa um hvort framferði þeirra standist meginreglu laga en þeir dómstólar sem hafa tekið mál konunnar fyrir hafa allir hafnað kröfum hennar og segja þær ósanngjarnar auk þess sem hún hafi ekki getað lagt fram nægar sannanir um meint brot nágrannanna, að því er segir í frétt BBC.

BBC fjallar um málið í dag en meðal þess sem Carden hefur farið fram á er að fjölskyldan sem býr í næsta húsi sem og annar nágranni fækki útiljósum við heimili sín, þaggi niður í gæludýrum sínum og skipti um plöntur í sameiginlegum garði byggðarinnar.

Carden heldur því fram að lyktin af sígarettum og útigrilli hafi valdið ótilhlýðilegum óþef á heimili hennar en um er að ræða úthverfi Perth, Girrawheen. „Þau hafa komið útigrillinu fyrir þarna svo ég finn fiskifýlu  eina lyktin sem ég finn er fiskifýla,“ segir Carden í viðtali við Nine News í gær en hún er grænkeri. Hún segir að þetta valdi því að hún geti ekki farið út í bakgarðinn við heimili sitt. 

Undirréttur hafnaði kröfum Carden í febrúar, þar á meðal kröfu hennar um að nágrannabörnin hefðu hljótt þegar þau væru úti að leika sér. Dómari sagði að það væri ekki hlutverk dómstóla að hafa afskipti af hlutum sem þessum. Þetta væri hluti af fjölskyldulífi  að nota garðinn til að leika sér og eðlilega heyrðist í börnum við leik. 

Jafnframt tók dómarinn fram að nágrannafjölskyldan hefði ítrekað reynt að uppfylla kröfur Carden, meðal annars hefðu þau fært grillið til á pallinum svo minni hætta væri á að það færi í taugarnar á nágrannakonunni. Þau leyfðu börnunum ekki að leika sér úti á kvöldin og hættu sér jafnvel ekki sjálf út í bakgarðinn á kvöldin og hefðu ekki kveikt útiljósin mánuðum saman af ótta við viðbrögð nágrannakonunnar. 

Carden var ekki sátt við niðurstöðu dómstólsins og fór með málið á næsta dómstig. Að sögn dómara lagði Carden  fram kvartanir á um 400 blaðsíðum.

Að sögn dómsforseta er málflutningur hennar yfirgengilegur og það sem hún hefur tínt til gegn nágrönnum sínum. En Carden er hvergi nærri hætt og í samtali við ástralska fjölmiðla segist hún ætla með málið enn lengra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert