„Valkvæð túlkun á orðum mínum“

Petteri Taalas, framkvæmdastjóri Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO).
Petteri Taalas, framkvæmdastjóri Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO). Ljósmynd/WMO

„Fréttaflutningur sem byggist á nýlegu viðtali við mig í Finnlandi hefur vakið athygli vegna þess að fullyrt er að ég hafi dregið í efa nauðsyn öflugra alþjóðlegra aðgerða til að sporna við loftslagsbreytingum. Þarna er á ferðinni valkvæð túlkun á orðum mínum og skoðunum sem ég hef haft um langa hríð. Ég hef tekið þátt í starfi við að milda áhrif loftslagsbreytinga frá því á níunda áratugnum.“

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Petteri Taalas, framkvæmdastjóra Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO). Viðtalið sem um ræðir birtist í finnska viðskiptatímaritinu Talouselämä fyrr í þessum mánuði og hafa ýmsir aðrir fjölmiðlar fjallað um efni þess. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson vísaði til viðtalsins í ræðu sinni á Alþingi í gærkvöldi í umræðum um stefnuræðu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.

Sagði Sigmundur Alþjóðaveðurfræðistofnunina hafa nýverið varað við ofstæki í loftslagsmálum. Náttúruverndarsamtök Íslands gagnrýndu Sigmund fyrir ummælin og sökuðu hann um að hafa vitnað í bresku samtökin Global Warm­ing Policy For­um sem væru „þekktir svindlarar“. Sigmundur vísaði því á bug að hafa vísað í samtökin sem hann hefði aldrei heyrt um. Hins vegar hefði hann vísað í Sameinuðu þjóðirnar en Alþjóðaveðurfræðistofnunin er hluti af þeim.

Taalas segir í yfirlýsingu sinni að í viðtalinu við finnska tímaritið segi hann með skýrum hætti að loftlagsaðgerðir byggðust á vísindalegum grunni og að samkvæmt bestu vísindalegu þekkingu væri loftslagið að breytast að stórum hluta af mannavöldum. „Á hinn bóginn benti ég á að það græfi undan vísindalegri nálgun þegar staðreyndir væru teknar úr samhengi til þess að réttlæta öfgafullar ákvarðanir í nafni loftslagsaðgerða.“

Taalas segir að aðgerðir beri að ákveða á yfirvegaðan hátt með hliðsjón af þeirri vísindalegu þekkingu sem fyrir hendi sé en ekki með hlutdrægum lestri á skýrslum loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna. „Það er afar mikilvægt að við drögum úr losun gróðurhúsalofttegunda, sérstaklega úr orkuverum, iðnaði og samgöngum. Þetta er afar brýnt ef takast á að milda loftslagsbreytingar og ná þeim takmörkum sem ákveðin voru í Parísarsamningnum um loftslagsbreytingar.“

Til þess að hindra að hitastig í heiminum aukist um minna en tvær gráður á Celsius miðað við fyrir iðnbyltingu segir Taalas í yfirlýsingu sinni að það þurfi að þrefalda aðgerðir og til að koma í veg fyrir hlýnun umfram 1,5 gráður fimmfalda þær. „Þetta eru tröllauknar áskoranir. En í viðtalinu lagði ég áherslu á að við getum ekki látið stjórnast af angist, vegna þess að það liggja fyrir skynsamlegar lausnir sem byggjast á alþjóðlegum einhug á milli ríkisstjórna og borgaralegs samfélags.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert