Donald Trump Bandaríkjaforseti bað Volodymyr Zelenskí, forseta Úkraínu, að rannsaka Joe Biden og son hans í símtali forsetanna í júlí. Hvíta húsið hefur birt endurrit af símtalinu þar sem beiðni Trumps kemur skýrt fram.
Í símtalinu biður Trump Zelenskí að starfa með Willam Barr, þáverandi dómsmálaráðherra, og Rudy Giuliani, einkalögmanni Trumps, í þeim tilgangi að rannsaka Joe Biden, sem þykir líklegur til að standa uppi sem sigurvegari í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar á næsta ári.
„Það er mikið rætt um son Biden og að [Joe] Biden hafi komið í veg fyrir lögsókn gegn honum og margir vilja komast að því hvað gerðist þannig ef þú gætir kíkt á allt tengt ríkissaksóknaranum væri það frábært,“ segir Trump meðal annars í símtalinu. Hann heldur því fram að árið 2016 hafi Joe Biden komið í veg fyrir rannsókn sem sneri að Burisma, gasfyrirtæki í Úkraínu sem sonur hans, Hunter Biden, gegndi stjórnunarstöðu hjá.
Ríkissaksóknarinn sem um ræðir er Viktor Shokin, en honum var vikið úr embætti í mars 2016 með stuðningi mikils meirihluta Úkraínuþings. Samkvæmt símtalinu telur Trump að Biden hafi beitt því fyrir sig að Shokin hafi verið vikið úr embætti.
Greint var frá því í gær að demókratar á Bandaríkjaþingi hafi tilkynnt að hafin verði formleg rannsókn á því hvort ákæra skuli Trump til embættismissis vegna brota í starfi, vegna frétta af að hann hafi þrýst á Zelenskí að hefja rannsókn á Biden.
Trump hefur viðurkennt að hafa rætt Biden í símatali sínu við Zelenskí 25. júlí, en neitar að hafa hótað að draga hernaðaraðstoð Bandaríkjanna til baka ef hann hafnaði beiðninni. New York Times greindi frá því í gær að 391 milljón dollara hernaðaraðstoð til Úkraínu hefði verið fryst nokkrum dögum áður en forsetarnir ræddu saman símleiðis.
Trump segir að þrátt fyrir það sem fram komi í endurriti símtalsins hafi hann með engum hætti beitt Zelenskí þrýstingi. „Þetta var vinsamleg ábending, enginn þrýstingur,“ sagði Trump við fjölmiðlamenn í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York þar sem allsherjarþing SÞ fer fram þessa dagana.
Trump bætti við að ásakanirnar á hendur sér í þessu máli væru „mestu nornaveiðar í sögu Bandaríkjanna“.