Segja loftslagsvána ekki raunverulega

Bréfið var sent í framhaldi af loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem …
Bréfið var sent í framhaldi af loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fór fram í New York um síðustu helgi. AFP

Hóp­ur vís­inda­manna og sér­fræðinga um lofts­lags­mál sendu fram­kvæmda­stjóra Sam­einuðu þjóðanna (SÞ) bréf í kjöl­far lofts­lags­ráðstefn­unn­ar sem fór fram í höfuðstöðvum SÞ í New York í Banda­ríkj­un­um í síðustu viku þar sem þeir segja „enga lofts­lags­vá til staðar.“

„Þau líkön sem eru í dreif­ingu og alþjóðleg stefnu­mót­un bygg­ist á eru ónot­hæf. Þar af leiðandi er það óverj­andi að eyða bill­jón­um dala í aðgerðir í þágu aðgerða sem ekki er þörf á,“ seg­ir í bréf­inu sem var stílað á fram­kvæmda­stjóra Sam­einuðu þjóðanna António Guter­res.

Nú­ver­andi stefna í lofts­lags­mál­um stefni lífi í hættu

Þar seg­ir einnig að nú­ver­andi stefna alþjóðasam­fé­lags­ins um lofts­lags­mál grafi und­an efna­hag margra þjóða og stofni lífi þegna þeirra í hættu með því að banna þeim að nota orku­gjafa á viðráðan­legu verði.

„Við hvetj­um þig [fram­kvæmda­stjóra Sam­einuðu þjóðanna] til að fylgja stefnu í lofts­lags­mál­um sem er byggð á áreiðan­leg­um vís­ind­um og raun­veru­leg­um efna­hagsaðstæðum sem tek­ur til­lit til þeirra sem munu bera skaða af óskyn­sam­leg­um aðgerðum í þágu lofts­lags­mála,“ seg­ir jafn­framt í bréf­inu.

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, er hvattur til að taka …
Ant­onio Guter­res, fram­kvæmda­stjóri Sam­einuðu þjóðanna, er hvatt­ur til að taka mark á áreiðan­leg­um vís­ind­um. AFP

Bréfið var und­ir­ritað af hópi vís­inda­manna og sér­fræðinga um lofts­lags­mál, meðal ann­ars af eðlis­fræðingn­um Rich­ard Lindzen og jarðfræðingn­um Al­berto Prest­in­inzi. Guus Berk­hout, hol­lensk­ur verk­fræðing­ur og pró­fess­or í jarðeðlis­fræði við Tækni­há­skól­ann í Delft, fer fyr­ir hópn­um.

Hlýn­un jarðar or­saki ekki fleiri nátt­úru­ham­far­ir

Á blaðamann­fundi sem hald­inn var af hópn­um sam­hliða því að greint var frá inni­haldi bréfs­ins var bent á að hlýn­un jarðar sem milli­ríkja­nefnd Sam­einuðu þjóðanna um lofts­lags­breyt­ing­ar (IPCC) miðar við í ný­legri skýrslu sé fjór­um sinn­um meiri en raun­veru­leg hlýn­un jarðar. 

Þá er því haldið fram af hópn­um að hiti jarðar hafi alltaf verið breyti­leg­ur og að hlýn­un síðustu ára komi ekki á óvart í ljósi þess að Litlu ís­öld­inni hafi lokið árið 1850. Þá sé ekki hægt að halda því fram að hlýn­un jarðar hafi leitt til fleiri eða verri nátt­úru­ham­fara.

Berk­hout seg­ist ætla að op­in­bera nöfn þeirra 500 sér­fræðinga sem skrifuðu und­ir bréfið í Osló hinn 18. októ­ber.

Hóp­ur­inn ætli að nýta sér brex­it

Fjöl­miðill­inn the In­depend­ent greindi frá því í byrj­un sept­em­ber að fræðimenn, stjórn­mála­menn og hags­munaaðila úr hópi af­neit­un­ar­sinna ætluðu sér að hleypa her­ferð af stokk­un­um í því skyni að koma í veg fyr­ir að stjórn­völd lög­festu mark­mið um að draga úr los­un gróður­húsaloft­teg­unda.

Í þeirri um­fjöll­un kom fram að hóp­ur­inn væri tengd­ur alþjóðleg­um sam­tök­um sem ætla sér að þrýsta á að reglu­verk um um­hverf­is­mál verði af­numið eft­ir að Bret­land geng­ur úr Evr­ópu­sam­band­inu og að fjöl­miðill­inn DeSmog hafi sýnt fram á að  sam­tök­in hafi tengsl við ráðherra í rík­is­stjórn Bor­is John­son, for­sæt­is­ráðherra Bret­lands.

Til­gang­ur bréfs­ins að hafa áhrif á um­fjöll­un fjöl­miðla

Robert Brulle, pró­fess­or í fé­lags­fræði við Drex­el-há­skól­ann og sér­fræðing­ur um af­neit­un lofts­lags­vís­inda, sagði í sam­tali við DeSmog að aðgerðir af­neit­un­ar­sinna væru merki um ör­vænt­ingu vegna auk­inn­ar um­fjöll­un­ar fjöl­miðla um lofts­lags­vá.

Geof­frey Supr­an, doktor við Har­vard-há­skóla í Banda­ríkj­un­um, tók und­ir það og sagði að aðgerðirn­ar væru til þess falln­ar að hafa áhrif á um­fjöll­un „barna­legra og grun­lausra“ fjöl­miðla um lofts­lags­mál.

Hópurinn er sagður ætla að nýta tengsl sín við ráðherra …
Hóp­ur­inn er sagður ætla að nýta tengsl sín við ráðherra í rík­is­stjórn Bor­is John­son til að þrýsta á af­regl­un í um­hverf­is­mál­um. AFP
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert