Segja loftslagsvána ekki raunverulega

Bréfið var sent í framhaldi af loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem …
Bréfið var sent í framhaldi af loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fór fram í New York um síðustu helgi. AFP

Hópur vísindamanna og sérfræðinga um loftslagsmál sendu framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna (SÞ) bréf í kjölfar loftslagsráðstefnunnar sem fór fram í höfuðstöðvum SÞ í New York í Bandaríkjunum í síðustu viku þar sem þeir segja „enga loftslagsvá til staðar.“

„Þau líkön sem eru í dreifingu og alþjóðleg stefnumótun byggist á eru ónothæf. Þar af leiðandi er það óverjandi að eyða billjónum dala í aðgerðir í þágu aðgerða sem ekki er þörf á,“ segir í bréfinu sem var stílað á framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna António Guterres.

Núverandi stefna í loftslagsmálum stefni lífi í hættu

Þar segir einnig að núverandi stefna alþjóðasamfélagsins um loftslagsmál grafi undan efnahag margra þjóða og stofni lífi þegna þeirra í hættu með því að banna þeim að nota orkugjafa á viðráðanlegu verði.

„Við hvetjum þig [framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna] til að fylgja stefnu í loftslagsmálum sem er byggð á áreiðanlegum vísindum og raunverulegum efnahagsaðstæðum sem tekur tillit til þeirra sem munu bera skaða af óskynsamlegum aðgerðum í þágu loftslagsmála,“ segir jafnframt í bréfinu.

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, er hvattur til að taka …
Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, er hvattur til að taka mark á áreiðanlegum vísindum. AFP

Bréfið var undirritað af hópi vísindamanna og sérfræðinga um loftslagsmál, meðal annars af eðlisfræðingnum Richard Lindzen og jarðfræðingnum Alberto Prestininzi. Guus Berkhout, hollenskur verkfræðingur og prófessor í jarðeðlisfræði við Tækniháskólann í Delft, fer fyrir hópnum.

Hlýnun jarðar orsaki ekki fleiri náttúruhamfarir

Á blaðamannfundi sem haldinn var af hópnum samhliða því að greint var frá innihaldi bréfsins var bent á að hlýnun jarðar sem milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) miðar við í nýlegri skýrslu sé fjórum sinnum meiri en raunveruleg hlýnun jarðar. 

Þá er því haldið fram af hópnum að hiti jarðar hafi alltaf verið breytilegur og að hlýnun síðustu ára komi ekki á óvart í ljósi þess að Litlu ísöldinni hafi lokið árið 1850. Þá sé ekki hægt að halda því fram að hlýnun jarðar hafi leitt til fleiri eða verri náttúruhamfara.

Berkhout segist ætla að opinbera nöfn þeirra 500 sérfræðinga sem skrifuðu undir bréfið í Osló hinn 18. október.

Hópurinn ætli að nýta sér brexit

Fjölmiðillinn the Independent greindi frá því í byrjun september að fræðimenn, stjórnmálamenn og hagsmunaaðila úr hópi afneitunarsinna ætluðu sér að hleypa herferð af stokkunum í því skyni að koma í veg fyrir að stjórnvöld lögfestu markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Í þeirri umfjöllun kom fram að hópurinn væri tengdur alþjóðlegum samtökum sem ætla sér að þrýsta á að regluverk um umhverfismál verði afnumið eftir að Bretland gengur úr Evrópusambandinu og að fjölmiðillinn DeSmog hafi sýnt fram á að  samtökin hafi tengsl við ráðherra í ríkisstjórn Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.

Tilgangur bréfsins að hafa áhrif á umfjöllun fjölmiðla

Robert Brulle, prófessor í félagsfræði við Drexel-háskólann og sérfræðingur um afneitun loftslagsvísinda, sagði í samtali við DeSmog að aðgerðir afneitunarsinna væru merki um örvæntingu vegna aukinnar umfjöllunar fjölmiðla um loftslagsvá.

Geoffrey Supran, doktor við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum, tók undir það og sagði að aðgerðirnar væru til þess fallnar að hafa áhrif á umfjöllun „barnalegra og grunlausra“ fjölmiðla um loftslagsmál.

Hópurinn er sagður ætla að nýta tengsl sín við ráðherra …
Hópurinn er sagður ætla að nýta tengsl sín við ráðherra í ríkisstjórn Boris Johnson til að þrýsta á afreglun í umhverfismálum. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert