Hefur ekki áhyggjur af kosningaafskiptunum

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, Donald Trump Bandaríkjaforseti og Sergei Kislyak, …
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, Donald Trump Bandaríkjaforseti og Sergei Kislyak, sendiherra Rússa, á fundinum í Hvíta húsinu. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði tveimur rússneskum embættismönnum árið 2017 að hann hefði engar áhyggjur af afskiptum rússneskra stjórnvalda af bandarísku forsetakosningunum 2016, af því að Bandaríkin gerðu það sama í öðrum löndum.

Washington Post segir þessi orð forsetans hafa orðið til þess að starfsfólk Hvíta hússins takmarkaði aðgang að ummælunum. Var aðgangur að yfirliti yfir fund Trump með Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, og Sergie Kislyak, sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum, takmarkaður við fáa embættismenn. Var þetta gert til að reyna að koma í veg fyrir að ummæli forsetans rötuðu almenningi fyrir sjónir að því er Washington Post hefur eftir fyrrverandi starfsmanni í Hvíta húsinu sem þekkir til málsins.

Leyniþjónustustarfsmaður sem starfaði í Hvíta húsinu kvartaði í síðasta mánuði yfir fram­ferði Don­alds Trumps Banda­ríkja­for­seta vegna sam­skipta hans við Volodomir Zelenskí, forseta Úkraínu. Í sam­tali for­set­anna reyn­ir Trump að fá Zelenskí til að taka Joe Biden, fyrr­ver­andi vara­for­seta Banda­ríkj­anna og nú­ver­andi for­setafram­bjóðanda, til rann­sókn­ar.

Greint var frá því fyrr í vikunni að Hvíta húsið hefði reynt að koma í veg fyr­ir að eft­ir­rit af samtalinu liti dagsins ljós með því að fá það vistað með há­leyni­leg­um skjöl­um. Sagði leyniþjónustumaðurinn í kærunni að önnur samtöl Trumps við erlenda þjóðarleiðtoga hefðu einnig verið vistuð með svipuðum hætti.

Hafa bandarískir fjölmiðlar greint frá því að að ein­ung­is ör­fá­ir hafi þannig fengið út­drátt sam­tala við Vla­dimír Pútín, for­seta Rúss­lands, og Mohammed bin Salm­an, krón­prins Sádi-Ar­ab­íu.

Fundurinn með Lavrov þegar umdeildur

Fundur Trumps með þeim Lavrov og Kislyak var þegar umdeildur, en áður hefur verið greint frá því að Trump hafi deilt með þeim trúnaðarupplýsingum um fyrirhugaða aðgerð gegn vígasamtökunum Ríki íslams.

Washington Post segir Trump nú einnig hafa sagt við þá að hann hefði ekki áhyggjur af afskiptum Rússa af forsetakosningunum, af því að Bandaríkin gerðu slíkt hið sama í öðrum ríkjum.

Kellyanne Conway, einn helsti ráðgjafi Trumps, hefur sagt fréttamönnum að meðhöndlun á upptökum af símtölum Trumps við þjóðarleiðtoga hafi verið breytt fljótlega eftir að hann settist á forsetastól og að þetta hafi gerst eftir að símtölum hans við forseta Mexíkó og forsætisráðherra Ástralíu var lekið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert