Viðskiptaárás, segja Danir

Flugvél Airbus.
Flugvél Airbus. AFP

Franskir mygluostar. Viskí frá Skotlandi. Breskur ullarfatnaður og svínakjöt frá Danmörku. Þetta eru örfá dæmi um þær vörur sem bandarísk stjórnvöld hyggjast leggja innflutningstolla á í kjölfar ákvörðunar Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar WTO í gær um að heimilt væri að leggja slíka tolla á vegna þess sem úrskurðað hefur verið sem ólöglegar niðurgreiðslur til franska flugvélaframleiðandans Airbus.

Þær vörur, sem tollarnir verða lagðir á eru tíundaðar á lista, sem USTR, viðskiptafulltrúi Bandaríkjastjórnar, hefur gefið út og nema gjöldin 25%, nema á flugvélar frá Frakklandi, Þýskalandi, Spáni og Bretlandi þar sem gjöldin eru 10%. Ákvörðunin á að taka gildi 18. október.

Á listanum eru m.a. svínakjöt og ostar af ýmsum tegundum frá löndum Evrópusambandsins, jógúrt og smjör, ávextir og ólífur. Þá er þar að finna pappír  og prentverk frá Þýskalandi og Bretlandi.

Þungar áhyggjur í Skotlandi

Þessi aðgerð hefur vakið hörð viðbrögð evrópskra fjölmiðla. T.d. segir Peter Thagesen hjá Samtökum iðnaðarins, Dansk Industri, í Danmörku í viðtali við danska dagblaðið Politiken að um „viðskiptaárás“ sé að ræða. Þar eru líkur leiddar að því að þessi aðgerð kunni að kosta danskan útflutningsiðnað um 700 milljónir danskra króna. „Ég á erfitt með að sjá hvers vegna Arla og og Danish Crown (sem framleiða mjólkur- og landbúnaðarvörur) þurfa að líða fyrir ólöglega ríkisstyrki til fransks flugvélaframleiðanda. En svona virka víst viðskiptastríð,“ segir Thagesen.

Viskí.
Viskí.

Í viðtali við Breska ríkisútvarpið, BBC, lýsir Karen Betts, sem er formaður Samtaka viskíframleiðenda í Skotlandi, yfir þungum áhyggjum vegna þessarar ákvörðunar. „Þetta er alvarlegt ástand fyrir viskíframleiðsluna,“ segir hún. „Undanfarin 25 ár hafa engir tollar verið lagðir á útflutning okkar til Bandaríkjanna, þannig að þetta er þungt högg.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert