18 látnir vegna rafrettunotkunar

Átján eru látnir úr lungnasjúkdómi sem tengist notkun á rafrettum í Bandaríkjunum frá því í mars. Bandarísk heilbrigðisyfirvöld greindu frá þessu í gær en yfir eitt þúsund hafa veikst í lungum vegna rafrettureykinga. Ekki hefur tekist að greina ástæðuna fyrir faraldrinum í Bandaríkjunum en fjölmargar og fjölbreyttar rannsóknir eru í gangi vegna þess. 

Í greinargerð sem læknar í Norður-Karólínu sendu frá sér í síðasta mánuði kemur fram að talið sé að sjúkdóminn megi rekja til aukaefna í olíum sem fólk andar að sér þegar það veipar. 

Bandaríska lýðheilsustofnunin (Centers for Disease Control and Prevention) greinir frá því að 18 séu látnir í 15 ríkjum Bandaríkjanna og sjúkdómstilvikin séu komin upp í 1.080. Hefur þeim fjölgað um 275 á milli vikna. Um 70% þeirra sem hafa veikst eru karlar og 80% eru yngri en 35 ára. 

Nýverið greindist lungnasjúkdómur hjá unglingi á Íslandi þar sem grunur leikur á að veikindin tengist notkun á rafrettum. Birtingarmynd sjúkdómsins svipar til þess sem lýst hefur verið í Bandaríkjunum. Viðkomandi er á batavegi, segir í frétt sem birt var á vef embættis landlæknis í síðasta mánuði.

Í þeim pistli er sagt afdráttarlaust að börn eigi aldrei að nota rafrettur, hvaða nöfnum sem þær nefnast. Þó sé vitað að notkunin sé umtalsverð, eða um 10% meðal ungmenna í 10. bekk grunnskóla. Kannanir gefi til kynna að hlutfallið sé að hækka og eru foreldrar og skólafólk hvatt til varðstöðu.

Þeim sem vilja hætta tóbaksreykingum sé bent á að nota viðurkennda meðferð við nikótínfíkn að höfðu samráði við lækni; rafrettur séu ekki gagnreynd meðferð. Ekki sé þó mælt með að fólk snúi frá rafrettum og aftur að tóbaksreykingum, sem eru enn skaðlegri, miðað við núverandi þekkingu.

Hámarksstyrkleiki nikótínvökva er lögum samkvæmt 20 mg/ml og notendur rafretta sterklega varaðir við því að blanda vökva sjálfir. Fólki sem notar rafrettur og fær einkenni frá lungum eins og hósta, uppgang, mæði og verk fyrir brjósti er ráðlagt að leita til læknis. Önnur einkenni sem lýst hefur verið í tengslum við rafrettunotkun í Bandaríkjunum eru einkenni frá meltingarvegi, svo sem ógleði, uppköst og niðurgangur, þreyta, hiti og þyngdartap.

Læknar eru beðnir að vera á varðbergi gagnvart slíkum einkennum og spyrja skjólstæðinga sína um rafrettunotkun.

Heilbrigðisyfirvöld munu skoða hvort gripið verði til viðbragða vegna mikillar rafrettunotkunar barna, t.d. með því að takmarka bragðefni og umbúðir sem höfða sérstaklega til þeirra, segir landlæknir.

Uppköst og hraður hjartsláttur eru einkenni eitrunar

Neytendastofa hefur tekið úr sölu um 100 tegundir af áfyllingum þar sem nikótíni hefur verið bætt við vökva á sölustað. Þegar seljendur slíks vökva blanda hann sjálfir kemur ekki fram hve mikið nikótín er í vökvanum. Erfitt er því að komast að því hvaða innihaldsefni eru í slíkri áfyllingu, við hvaða aðstæður blöndunin fer fram, hvernig mælingar fara fram eða hver eiturhrif eru.

Á vefsetri sínu vekur Neytendastofa athygli á að meðal einkenna eitrunar af völdum nikótíns eru uppköst, hraður hjartsláttur, öndunarerfiðleikar og aukin munnvatnsframleiðsla. Áfyllingar fyrir rafrettur mega að hámarki innihalda 20 mg/ml af nikótínvökva og tilkynna þarf áfyllingar með nikótíni til sameiginlegs skráningarkerfis innan Evrópu. Þá þarf vökvinn að uppfylla öll skilyrði laga og reglugerða sem við hann eiga og afla þarf eiturefnaleyfis frá Vinnueftirlitinu við vinnu þar sem notuð eru að staðaldri eiturefni.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði í samtali í Morgunblaðið nýverið að nýlegar fréttir um lungnasjúkdómafaraldur í Bandaríkjunum, sem virðist tengjast rafrettunotkun, séu mikið áhyggjuefni.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert