Tæknideild lögreglunnar hefur í morgun farið yfir tölvu manns sem stakk fjóra starfsfélaga sína til bana á lögreglustöð í París í gær. Kona mannsins segir að hann hafi verið í uppnámi þegar hann fór til vinnu vopnaður eldhúshníf.
Maðurinn, Mickaël Harpon, var 45 ára gamall og starfaði á upplýsingatæknisviði lögreglunnar. Hann stakk þrjá karla og eina konu til bana, þrjá lögreglumenn og einn almennan starfsmann, í höfuðstöðvum lögreglunnar í miðborg Parísar. Árásin varði í hálftíma en lauk með því að árásarmaðurinn var skotinn til bana. Tvö særðust í árásinni en hvorugt þeirra er í lífshættu.
Gríðarleg hræðsla greip um sig meðal starfsmanna hjá lögregluembættinu en lögreglan hefur glímt við og alvarlega stöðu undanfarið vegna ofálags á fólk og fjölda sjálfsvíga lögreglumanna. Alls hafa 52 lögreglumenn tekið eigið líf það sem af er ári. Lögreglan lagði tímabundið niður vinnu í vikunni til að mótmæla miklu vinnuálagi. Ein helsta ástæðan eru mótmæli og óeirðir á vegum gulvestunga.
Eiginkona árásarmannsins segir að maður hennar, sem var heyrnarskertur, hafi verið afar ólíkur sjálfum sér kvöldið áður og í miklu uppnámi.
Húsleit á heimili þeirra í úthverfi Parísar, skammt frá Charles de Gaulle-flugvellinum, leiddi ekkert óvenjulegt í ljós varðandi manninn. Hann snerist til íslamtrúar fyrir 18 mánuðum en ekkert bendir til þess að hann hafi aðhyllst öfgaskoðanir. Hann vann í hugbúnaðardeild leyniþjónustudeildar lögreglunnar og hafði starfað þar síðan árið 2003.
Skömmu eftir árásina greindi Remy Heitz, saksóknari í París, frá því að hryðjuverkadeild lögreglunnar kæmi ekki að rannsókninni og er jafnvel talið að um innanhússdeildur hafi verið að ræða.
Lítið fór fyrir manninum og að sögn nágranna iðkaði hann trú sína líkt og eðlilegt er með því að fara til bæna í mosku í hverfinu. Hann og kona hans eiga tvö börn, þriggja og níu ára.
Að sögn innanríkisráðherra Frakklands, Christophe Castaner, hefur maðurinn aldrei sýnt af sér óeðlilega hegðun né lent í samskiptavanda.
Maðurinn notaði eldhúshníf til að stinga tvo lögreglumenn og almennan starfsmann til bana á fyrstu hæð lögreglustöðvarinnar. Hann réðst síðan á tvær konur í stigaganginum á leið út úr húsinu. Önnur þeirra lést strax en hin er alvarlega særð. Sú sem lést var lögreglukona en hin almennur starfsmaður.