Öldungadeildarþingmaðurinn Lindsey Graham ætlar að biðla til fulltrúadeildar Bandaríkjaþings um að snúa við ákvörðun Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að draga Bandaríkjaher frá norðurhluta Sýrlands og landamærum Tyrklands.
Graham situr á öldungadeildarþingi fyrir Repúblikanaflokkinn og er einn annálaðasti stuðningsmaður forsetans.
Tyrkir hafa ákveðið að ráðast í hernaðaraðgerðir í norðurhluta Sýrlands og hafa heitið því að „hreinsa upp“ kúrda, sem þeir segja hryðjuverkamenn, á svæðinu. Kúrdar voru helstu bandamenn Bandaríkjahers í stríðinu gegn Ríki íslams í Sýrlandi, en nú segir Trump að þeir verði sjálfir að „finna út úr þessu“.
Bandaríkin gætu ekki tekið þátt þessum „fáránlegu, endalausu stríðum“.
Graham segir að með ákvörðuninni séu „hörmungar í uppsiglingu“. Þá muni ákvörðun Bandaríkjanna um að yfirgefa kúrda verða svartur blettur á sögu landsins. Hann býst við stuðningi úr röðum þingmanna beggja flokka við tillögu hans um að snúa ákvörðun Bandaríkjaforseta.